Framhalds-aðalfundur ÍBV-íþróttafélags verður fer fram í kvöld. Á dagskrá fundarins eru tvö mál auglýst annars vegar kosning um breytt skipulag innan félagsins byggt á niðurstöðum sáttahóps og hins vegar verður kosin ný aðalstjórn félagsins. Fundurinn hefst klukkan 20:00 í Týsheimilinu.

Skipað var í sáttanefnd ÍBV íþróttafélags desember síðastliðinn vegna ósættis sem skapaðist um skiptingu tekna innan félagsins. Nefndina skipa þau Arnar Pétursson Unnur Sigmarsdóttir, Ingi Sigurðsson og Jón Óskar Þórhallsson auk Vilhjálms Egilssonar sem leiddi viðræðurnar. Sæunn Magnúsdóttir formaður Aðalstjórnar ÍBV sagði í samtali við Eyjafréttir nefndina nú hafa lokið störfum og segist ánægð með niðurstöðuna. „Nefndin náði sátt um skiptingu tekna auk þess sem hún setti fram tillögur um uppstokkun á verkaskiptingu milli Aðalstjórnar og deilda sem miðast við að dreifa betur ábyrgð og ná meiri slagkrafti í starf deilda með áherlsu á barna- og unglingastarf.“

Hverjar eru stærstu breytingarnar sem þið ætlið að ráðast í eftir vinnu nefndarinnar? „Verksvið Aðalstjórnar verður þrengt en verkefni færð til deilda. Deildirnar munu bera ábyrgð á barna- og unglingastarfi og öllum rekstri sem tengist íþróttastarfi öðru en mótum. Skipuriti félagsins verður breytt þannig að framkvæmdastjórar deilda færast ofar í skipurit og bera ábyrgð á rekstri og fjárhagsáætlanagerð deilda sem áður lá hjá sjálfboðaliðum í handknattleiks- og knattspyrnuráði.“

Sæunn segir þetta fyrirkomulag skila meiri yfirsýn og aðhaldi í rekstri og fjármálum félagsins. Betra starfsumhverfi þar sem boðleiðir verða styttri og  framkvæmdastjórarnir ættu að geta hlaupið undir bagga hver með öðrum. „Þetta kemur til með að færa ábyrgð á fjárhag og fjárhagsáætlanagerð frá sjálfboðaliðum yfir á launaða starfsmenn sem skapar vonandi betri umgjörð um sjálfboðastarf þar sem allir geta lagt sitt af mörkum til jákvæðra og gefandi verkefna. Þá er barna- og unglingastarf fært undir deildirnar og því í raun þrír framkvæmdastjórar sem skipta með sér ábyrgð á því í stað eins áður.“

Sæunn segist binda vonir við að þessar breytingar verði félaginu til heilla. „Ég er bjartsýn en við þurfum öll að leggjast á eitt og vinna að hag félagsins okkar. Breytingar sem þessar gerast ekki á einni nóttu en ég hef trú á því að þær séu af hinu góða og muni skila sér til lengri tíma litið.“