Á kótilettukvöldinu á morgun fimmtudag, 26. október verð ég með bók mína, Lífsaga Didda Frissa til sölu í Höllinni. Bókin verður árituð og 2.000 kr. af hverju seldu eintaki rennur til kótilettukvöldsins og þeirra verkefna sem þeir styrkja. Verkefnið er gert í samstarfi við Gunna og Pétur Steingríms.

Bókin er tæpar 400 blaðsíður, ríkulega myndskreytt fjallar um Didda Frissa sem er sjómaður frá Sandgerði sem á sér magnaða sögu eins og margir sjómenn og útgerðarmenn í Eyjum og sjávarplássum viða um land. Bókin hefur fengið góða dóma og er full af stórskemmtilegum sögum og atburðum sem eru lyginni líkust. Ég veit að stemningin í bókinni er Eyjamönnum að skapi og vonandi getum við saman tekið þátt í að styrkja góð málefni í Eyjum með sölu bókarinnar.

Bókin verður seld á 7000 kr. og verður posi á staðnum, fyrir og eftir kótilettukvöldverð.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður og rithöfundur.