Áætlun um hreinsun bæjarins tilbúin 13 dögum eftir að gosið hófst = Skýrslan vakti sterk viðbrögð og kveikti von hjá bæjarstjórninni 

Fjarlægðar voru meira en tvær milljónir rúmmetra af vikri og hrauni úr Vestmannaeyjabæ eftir eldgosið 1973. Miðað við að vörubílar þess tíma tóku um 8,3 rúmmetra af efni þurfti tæplega 252 þúsund vörubílaferðir til að fjarlægja þetta magn. Pétur Stefánsson verkfræðingur var aðalráðgjafi Viðlagasjóðs um hreinsunina í Eyjum. Auk þess vann hann ásamt fleirum að mati á eignatjóni sem varð í Vestmannaeyjabæ. 

Vestmannaeyjagosið og það sem því tengdist er eftirminnilegasta verkefnið á 50 ára starfsævi minni. Það er fyrst og fremst vegna þess hvað þetta var einstæður atburður,” segir Pétur Stefánsson verkfræðingur. Hann starfaði á Almennu verkfræðistofunni (AV) í 34 ár.  

Daginn sem eldgosið hófst, 23. janúar 1973, leigði Pétur ásamt félögum sínum á AV flugvél til að skoða eldgosið úr lofti.  Fimm eða sex dögum síðar ákváðu nokkrir félagar á AV að fara út í Eyjar til að moka gjalli af þökum.  

Nú farið þið og gerið áætlun um hreinsun 

Þá hringdi vinur minn, Guðmundur Hjartarson seðlabankastjóri, og sagði: Þið farið ekkert að moka af þökum. Nú farið þið og gerið áætlun um að hreinsa Eyjarnar,“ segir Pétur. „Við flugum þrír út í Eyjar þann 30. janúar og gengum um alla Heimaey og kynntum okkur aðstæður. Svo fengum við lánað öskuþykktarkort hjá Almannavörnum og fórum með það í bæinn.  

Starfsmenn AV settust yfir þessi gögn og fengu í lið með sér m.a. þaulreynda menn eins og Tómas Grétar Ólason vélamann sem ráðgjafa um þörf á vinnuvélum auk manna frá Vegagerðinni og tveggja arkitekta. Unnið var nótt og dag við áætlun um hreinsun Heimaeyjar. Verkinu lauk á fjórum sólarhringum, aðeins 13 dögum eftir að eldgosið hófst. AV-menn höfðu þá samband við Magnús H. Magnússon bæjarstjóra og óskuðu eftir að fá að koma á fund bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Þeir voru boðaðir á fund 6. febrúar 1973 í Hafnarbúðum. Pétur fór þangað ásamt Svavari Jónatanssyni, framkvæmdastjóra AV.  

Eftirminnilegur bæjarstjórnarfundur 

„Þetta er einn minnistæðasti fundur sem ég hef setið, segir Pétur. Auðfundið var að náttúruhamfarirnar lágu þungt á bæjarfulltrúunum. Þeir fengu hver sitt eintak af skýrslunni Hreinsun gosefna úr Vestmannaeyjakaupstað, sem var dagsett 5. febrúar 1973. Ég útskýrði efni hennar lið fyrir lið.  Í fyrstu fannst mér bæjarfulltrúarnir ekki vera tilbúnir til að kaupa þessar hugmyndir formálalaust. En smám saman léttist andrúmsloftið eftir því sem á kynninguna leið. Einn og einn fór að brosa og aðrir að  tárast. Ég man að Sigurgeir heitinn Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar, þurfti að taka upp vasaklútinn. Þegar við kvöddum var andrúmsloftið orðið allt annað en þegar við komum. Það kviknaði bjartsýni hjá bæjarstjórninni,“ segir Pétur. 

Hann rifjaði þetta upp í endurminningum sínum, Haugseldi – Veraldarsögu verkfræðings sem ELBA gaf út 2018. „Við mátum það svo að hreinsa þyrfti 1.850.000 m3 af gjalli úr bænum og næsta nágrenni. Útvega þyrfti 7 hjólaskóflur, 10 gröfur, 40 vörubíla og fullt af smátækjum. Með þessum flota og 300 starfsmönnum mætti fullhreinsa bæinn á 24 vikum og kostnaðinn áætluðum við 260 milljónir,“ skrifar Pétur (bls. 270).  Þegar hreinsuninni lauk 29. nóvember 1974 höfðu verið fjarlægðir samtals 1.958.891 m3 af vikri auk 131.356 m3 af hrauni úr bænum.  

„Áætlunin um hreinsun gosefna úr Vestmannaeyjakaupstað er ekki merkilegri en aðrar áætlanir nema fyrir tvennt. Hún var gefin út 13 dögum eftir að gosið byrjar og hún gekk upp,“ segir Pétur. Hann segir það hafa verið ráðstöfun forsjónarinnar, eða tilviljun, hvað magnið af gosefnum sem hreinsað var úr bænum varð á endanum nálægt upphaflegri áætlun. Hraun rann yfir stóran hluta af austurbænum þar sem gjallþykktin var mest og því var ekki hreinsað þar. Aftur á móti féll meiri aska yfir vesturbæinn en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. 

Framkvæmdaáætlunin var sundurliðuð þannig að hver verkþáttur fylgdi öðrum á skilgreindum hreinsunarsvæðum. Það kom í veg fyrir truflun á framkvæmdum og tvíverknað. Þá var gerð kostnaðaráætlun um alla þætti eins og vélaþörf og mannskap.    

Viðlagasjóður tók við af Vestmannaeyjanefnd 7. febrúar 1973 við að tryggja hag Vestmannaeyinga og stuðla að endurreisn byggðarinnar. Formaður stjórnar sjóðsins var Helgi Bergs efnaverkfræðingur sem einnig var bankastjóri Landsbanka Íslands. Stjórn Viðlagasjóðs ákvað 5. maí 1973 að hefja hreinsun austur að Helgafellsbraut og að henni meðtalinni. Páll Zóphóníasson bæjartæknifræðingur var ráðinn sem framkvæmdastjóri hreinsunarinnar og Almenna verkfræðistofan ráðin sem aðalráðgjafi Viðlagasjóðs. Þetta varð helsta verkefni Péturs næstu tvö árin. „Við Páll unnum að þessu eins og tvíburar í allt að tvö ár,“ segir Pétur. Hann fór oft til Vestmannaeyja á þessum tíma og í alls konar veðrum. Pétur bregður sér inn í geymslu og kemur með snjáða handtösku sem kölluð er „gostaskan“ á heimili hans. Pétur keypti hana nýja 1973 og hún fylgdi honum allan gostímann. „Gostaskan var alltaf full af hlýjum fatnaði, ef eitthvað færi úrskeiðis,“ segir Pétur. 

Hreinsun lóðanna var vandasöm 

Bænum var skipt í fjögur hreinsunarsvæði. Þegar var byrjað að hreinsa götur bæjarins með hjólaskóflum og vörubílum með upphækkuð skjólborð á pallinum. „Eitt erfiðasta viðfangsefnið var hvernig ætti að hreinsa lóðir og þröng húsasund þar sem stór tæki komust ekki að,” segir Pétur. Hugmyndir komu upp um að ryksuga vikurinn af lóðunum. Þeir Pétur og Tómas Grétar fóru til Noregs og Þýskalands til að athuga með öflugar ryksugur. Þeir tóku með sér tvo svarta plastpoka með vikri til að sýna vélaframleiðendum. Niðurstaðan var sú að efnið myndi valda miklu sliti á tækjunum auk þess sem erfitt reyndist að soga upp efnið. Því var ákveðið að halda sig við upphaflegu áætlunina og beita stórum vökvagröfum við grófhreinsun lóðanna, en smágröfum, hjólbörum og skóflum fínhreinsunina.  

Pétur segir það hafa skipt miklu máli að hann leitaði mikið til reyndra verktaka og vélamanna um ráðgjöf. Einn þeirra var Birgir Ólason vinnuvélastjóri sem þá stjórnaði einni stærstu hjólaskóflu landsins og annar var Tómas Grétar sem var lykilmaður í grófhreinsun lóðanna. Ég fór til London og Brussel og samdi m.a. um kaup á þremur litlum vélskóflum (Bobcat). Á meðan lét Tómas Grétar smíða feiknastórar vikurskóflur á gröfurnar. Hann lét sjóða rör framan á skerann á skóflunum til að skemma síður grassvörðinn. Tómas Grétar átti þessa hugmynd,” segir Pétur. Einnig voru útvegaðar fleiri vinnuvélar eftir ýmsum leiðum. Þessi hreinsunartörn stóð linnulaust frá byrjun maí til loka september. Kostnaður Viðlagasjóðs vegna þessa áfanga hreinsunarinnar var 228,1 milljón á verðlagi þess tíma. Það samsvaraði verði 45 til 50 þriggja herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Vestmannaeyjabær tók síðan við hreinsuninni 1. október 1973 og hélt henni áfram til vors, aðallega á opnum svæðum og í Herjólfsdal. En hvernig var stemmningin í Vestmannaeyjum meðan á þessu stóð? 


Myndir: Sigurgeir Jónasson.

Sprengdu sjóðandi heitt hraunið 

Mér fannst ríkja mikil bjartsýni eftir að hreinsunin fór af stað og það fór að sjást árangur. Menn fóru að gera við húsin sín nánast á hælana á hreinsuninni. Það var stórkostlegt,” segir Pétur. Eftirminnilegasti hlutinn af hreinsuninni fyrir mig er hreinsunin á hrauninu. Menn eru ekki vanir að sprengja glóandi heitt hraun.” Sjóðheitt hraun lá upp að fiskvinnsluhúsum austanvert við Strandveginn og upp eftir Kirkjuvegi og í Miðstræti. Byrjað var að ýta hrauninu frá fiskvinnsluhúsunum síðsumars 1973 en því var fljótlega hætt vegna mikils hita. Viðlagasjóður óskaði eftir tillögum og áætlun um hraunhreinsun á Strandvegi í nóvember. Pétur óskaði eftir því að fá að gera tilraunasprengingar og var það samþykkt. Hann fékk þaulvana sprengjumenn úr verktakageiranum til Eyja. Þeir höfðu aldrei áður sprengt heitt hraun en datt í hug að það mætti kæla borholurnar með vatni og sprengja svo með hraði. Samið var við Loftorku um að gera slíka tilraun. Pétur keypti líka sérstaka áhættutryggingu fyrir hönd Viðlagasjóðs vegna þessa ævintýris. Byrjað var að bora á bak við Fiskiðjuna og Slökkvilið Vestmannaeyja kældi holurnar með vatni áður en hlaðið var og sprengt. Þetta gekk vel.  

Pétur gerði þá áætlun um hraunhreinsun á Strandvegi, við mjölskemmu FES, upp Kirkjuveg og í Miðstræti. Samið var við Ístak sem átti lægsta boð í verkið. Þegar ofar dró í hraunbreiðunni var hitinn allt að 420°C í Miðstræti. Þessi hraunhreinsun stóð fram eftir sumri 1974. Þegar henni lauk fór Ístak að hreinsa vikur austan Helgafellsbrautar og notaði við það stórvirkar vinnuvélar sem voru í Eyjum eftir hraunhreinsunina. Því verki lauk í nóvemberlok 1974 og þar með var hreinsunarstarfinu lokið. 

Lítill ágreiningur vegna tjónamats íbúðarhúsa 

Mikið tjón varð á fasteignum og lausamunum í Vestmannaeyjum í gosinu. Pétur segir í bók sinni að þegar gosið hófst hafi verið um 1.350 hús í Vestmannaeyjum. Af þeim fóru 419 undir hraun. Mikið tjón varð á öðrum húseignum. Lög um viðlagasjóð gerðu ráð fyrir því að tjónþolum yrði bætt tjón sitt. Altjónshús yrðu bætt samkvæmt brunabótamati en tjón á öðrum húsum samkvæmt mati. Meta þurfti tjón á 800-900 húseignum.  

Viðlagasjóður leitaði til Péturs og þeirra Gunnars Torfasonar og Þórodds Th. Sigurðssonar. Þeir höfðu starfað saman hjá Fasteignamatsnefnd Reykjavíkur í þrjú ár og þekktu vel til matsstarfa. Freyr  Jóhannesson tæknifræðingur var ráðinn til að stjórna matinu og sex aðra, sem flestir voru tæknifræðingar, til að skoða húseignirnar.         

„Ég varð andvaka yfir þessu verkefni og það var í eina skiptið sem ég missti svefn vegna vinnu,” segir Pétur. „Við byrjuðum á að semja reglur fyrir matið, útbúa eyðublöð fyrir skoðunarmenn og skipuleggja vinnuna. Það gekk mjög vel þótt við hefðum engin fordæmi til að styðjast við. Auðvitað vorum við mjög meðvitaðir um að oft vorum við að fjalla um aleigu fólks. Arnar Sigurmundsson, sem er mikið lipurmenni, var þá starfsmaður Viðlagasjóðs og sá um samskipti við húseigendur. Honum fórst það vel úr hendi. Langflest málin voru afgreidd á staðnum.” Pétur dregur fram bók, Tjónamat í Vestmannaeyjum. Hún hefur að geyma sundurliðaða matsgerð á öllum húseignum sem voru metnar eftir gosið. 

Varla var til hús sem ekkert tjón varð á. Í Vesturbænum var tjónið þó yfirleitt minniháttar. Það sem kom mér á óvart var að það voru ekki mörg hús sem voru alveg ónýt. Austan við Helgafellsbrautina var gjallið 5-7 metra þykkt og þar sást ekki nema bunga þar sem hús voru undir. Þótt það væri meter niður á skorsteininn komu þau ótrúlega heilleg undan gjallinu. Þessi hús voru mörg gríðarlega sterkbyggð, með bröttu þaki og steyptri loftplötu. Það var reyndar allt ónýtt inni í þeim, timburverkið hafði soðnað, en veggirnir voru í lagi og var hægt að gera við ótrúlega mörg hús austan Helgafellsbrautar. Það kom í okkar hlut að gefa út dánarvottorð þeirra húsa sem ekki varð bjargað,” segir Pétur. „Það er hvað eftirminnilegast eftir þessi störf mín í Eyjum að það kvartaði enginn í mín eyru, hvorki vegna hreinsunarinnar eða fasteignamatsins.”   

Greinina má einnig lesa í 20. tbl Eyjafrétta.