Starfshópur sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði til að koma með tillögur um aðgerðir sem heyra undir ráðuneytið og eflt geta samfélagið í Vestmannaeyjum skilaði af sér á mánudaginn 9. október. Fékk Guðlaugur Þór skýrsluna í hendur  við athöfn í Eldheimum. Tillögurnar snúa m.a. að bættu orkuöryggi hvað varðar dreifi- og flutningskerfi raforku og að kannaðir verði möguleikar á aukinni orkuöflun í Eyjum. Jafnframt lagði hópurinn fram tillögur um eflingu hringrásarhagkerfisins, menningarminjar og náttúrutengdrar innviðauppbyggingar sem og með hvaða hætti verði stuðlað að grænni atvinnuuppbyggingu í Eyjum. Hópinn skipa Árni Sigfússon, formaður, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Gísli Stefánsson bæjarfulltrúi og leituðu þau víða fanga.  

Framtíðarsýn Írisar, Gísla og Árna er að  Vestmannaeyjar búi að orkuöryggi og verði að mestu leyti sjálfum sér nægar um raforku og varma. Vestmannaeyjar verði Græna eyjan – samfélag sem skarar fram úr og verði öðrum fyrirmynd. Samfélag sem keyrt er á endurnýjanlegri orku. Framtíð þar sem Eyjarnar verði markaðssettar sem sjálfbær byggð, sjávarútvegsfyrirtækin nýti endurnýjanlega orku og útgerð sem fjárfestir í grænum valkostum og hámarki verðmætasköpun. Stefnt er að lagningu tveggja rafstrengja 2025 og óskir um að ný vatnsleiðsla verði lögð um leið. 

Guðlaugur Þór.

Tveir rafstrengir 2025 

Grundvöllurinn er bætt orkuöryggi í Vestmannaeyjum með öruggara dreifi- og flutningskerfi raforku. Algjört forgangsmál er að mati nefndarinnar er að nú þegar verði hafinn undirbúningur að lagningu tveggja nýrra rafstrengja til Vestmannaeyja, samhliða. Það sé eina leiðin til að tryggja öruggan raforkuflutning og hringtengingu. Ná 100% orkuskiptum í Vestmannaeyjum líkt og áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir. Markmið er að tryggja fullnægjandi raforkuinnviði í Vestmannaeyjum til þess að mæta aukinni raforkuþörf. 

Var upplýst á fundinum að stefnt sé að lagningu tveggja strengja strax á árinu 2025. Þörfin í dag er 58 MW. Þar af eru um 44 MW ótryggur flutningur sem þýðir að olía er notuð eins og gerðist á loðnuvertíðinni sl. vetur. Bent er að raforkuþörfin muni aukast í framleiðslu á fiskimjöli, landeldi á laxi og landtengingu skipa. „Má áætla að raforkuþörf í Vestmanneyjum verði samtals yfir 100 MW um 2030,“ segir í skýrslunni. 

„Þar með væri unnt að svara þörfum samfélagsins til a.m.k. næstu 15 ára og bregðast við með viðunandi hætti ef einn strengurinn bilar. Líka ef fylgja skal stefnu ríkisstjórnar um orkuskipti og tryggja orkuöryggi Eyjamanna er mikilvægt að leggja þá í síðasta lagi sumarið 2025.“ 

Ný vatnslögn 

 „Vatnslögn til Vestmanneyja er önnur lífæð Eyja! Án kalds vatns til Eyja myndi samfélagið lamast,“ segir skýrslunni. Er þá vægt tekið til orða, því allt myndi stöðvast og hugsanlega þyrfti að flytja íbúana í burtu. Þriðja leiðslan var lögð 2008 og sú eina sem flytur vatn frá landi til Vestmannaeyja í dag. Hvetur nefndin til þess að unnið verði hratt og vel og hafist handa við lagningu nýrrar vatnslagnar til Vestmannaeyja. Hagkvæmt væri að nýta sama skip og leggja á tvo rafstrengi til Eyja 2025. Markmið er að  tryggja vatnsöryggi í Vestmannaeyjum.  

Þriðji kaflinn heitir Orkuöflun innan svæðis og m.a. bent á sjóvarmadælustöð HS veitna í Eyjum sem þegar  hefur sannað gildi sitt.  Bent er á að með aukinni tækniþróun megi nýta betur volgar borholur sem hafa verið boraðar í Eyjum en þóttu ekki hæfar til vinnslu.  

Bent er á fleiri kosti og leggur starfshópurinn til að ráðuneytið setji af stað vinnu í samvinnu við Vestmannaeyjabæ að kanna frekari nýtingu lághita og annarra staðbundinna orkuöflunarkosta með það fyrir augum að stuðla að aukinni orkuframleiðslu í Vestmannaeyjum. 

 Hringrásarhagkerfi og fullvinnsla 
Í kaflanum, Hringrásarhagkerfi og græn atvinnuuppbygging segir að til lítils sé að ræða um græna atvinnustarfsemi eða hringrásarhagkerfi ef hún þarf áfram að byggja að stórum hluta á jarðefnaeldsneyti. Bent er fullnýtingu sem um langt skeið hafi verið keppikefli sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum. „Aukin athygli á sérstöðu og áhuga Vestmannaeyinga á þessu sviði getur aukið ferðaþjónustu og styrkt ímynd Vestmannaeyja sem fyrirmynd í hringrásarhagkerfinu,“ segir og er m.a. horft til samstarfs við Íslenska sjávarklasann. 

„Ekki þarf að spyrja um áhuga og vilja matvælafyrirtækjanna í Eyjum, veitingastaða, ferðaþjónustunnar, bæjarstjórnar og listafólks. Hvað þýðir að nýta sjávarafurðir 100%? Með því er stefnt að því að ekkert fari til spillis, allt verði nýtt. Keppst verði við að gera það á orkusparandi hátt og að kolefnissporið sé sem minnst. Þannig er hringrásarhagkerfið raungert.“ 

Tillaga starfshópsins: Vestmannaeyjabær verði fyrsta sveitarfélagið í heiminum til að taka upp stefnu sem miðar að „100% fisk“, þ.e. 100% fullvinnslu og fullnýtingu allra sjávarafurða. Samhliða verði unnið að eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu.  

Markmið: Að auka enn frekar verðmætasköpun með fullnýtingu sjávarafurða á sjálfbæran hátt og efla hringrásarhagkerfið. Unnið er að gerð viljayfirlýsingar um framangreint samstarf, að frumkvæði Vestmannaeyjabæjar og Íslenska sjávarklasans.“ 

 Menningarminjar og náttúrutengd innviðauppbygging 

Bent er á þann möguleika að Vestmannaeyjar í heild verði alþjóðlegur jarðvangur, „Unesco Global Geopark“. Markmiðið er að auka náttúruvernd og yrði verkefninu alfarið stjórnað héðan. Gerð er krafa um gæði þjónustu og umhverfis til að hljóta tilnefninguna en það yrði alfarið á hendi Vestmannaeyjabæjar og samstarfsaðila að uppfylla öll skilyrði. 

„Vestmannaeyjar, með hina miklu jarðfræðilegu sérstöðu, fuglalífi, friðaða Surtsey, sem mælir þróun frá því hún reis úr sjó á sjöunda áratugnum. Ekki síst samfélag sem hefur lifað og barist við eldgos í íbúabyggð hefur svo sannarlega merka sögu að segja. Það hefur sannast víða að jarðferðamennska (e. geotourism), hefur leitt til nýsköpunar í atvinnurekstri með nýjum störfum og hágæða þjálfun. Hún skapar ný tækifæri til tekjuöflunar á sama tíma og jarðfræðilegar auðlindir svæðis eru verndaðar. Þessi hugmynd myndi einnig falla mjög vel að þeim innviðum sem Eyjamenn hafa þegar byggt upp, s.s. Eldheimum, FabLab, SeaLife, Ferðamálasamtökum og samstarfi við margvíslegar vísindastofnanir. Með því að ná skráningu sem „Unesco Global Geopark“ er bæði verið að efla vitund heimafólks fyrir náttúrunni og kynna þetta einstaka samfélag fyrir umheiminum,“ segir í skýrslunni.  

 Uppbygging í þágu náttúruverndar  

„Aðlögun mannsins að náttúrunni, samspil þess að hennar sé notið og að hún sé varin er mikilvægt verkefni. Mikilvægt er að marka enn frekar gönguleiðir um Heimaey og gera áætlun um góðar gönguleiðir til vernda viðkvæma náttúru. Þetta er viðamikið verkefni sem ráðuneytið er hvatt til að styðja. Gott starf  bæjarins, stuðningshópa og samtaka heimamanna hafa lagt sitt að mörkum til að bæta aðgengi að merkum náttúrusvæðum,“ er meðal þessu sem kemur fram í þessum kafla og er bent á Sjö tinda sýn og Puffin run og fleiri viðburði sem skýr dæmi.  

Starfshópurinn leggur til að ráðuneytið og Vestmannaeyjabær skoði möguleika á frekari uppbyggingu innviða í Vestmannaeyjum til þess að vernda einstaka náttúru í Eyjanna. Markmið er að auka náttúruvernd með innviðauppbyggingu svo sem göngustígum og útsýnispöllum.  

 Nýsköpun  

„Okkur ber að styðja yngstu íbúana til að skynja menningarlegan og félagslegan arf sem býr í einstakri náttúru. Besta leiðin til að styrkja virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu til framtíðar er að kenna börnum okkar að virða og umgangast umhverfið. Starfshópurinn telur mikilvægt að sú uppbygging sem nú á sér stað í styrkingu leik- og grunnskólakerfisins í Eyjum, KVEIKJUM NEISTANN njóti áfram athygli og stuðning allra ráðuneyta. Átakið þarf að verða eðlislægt fyrir samfélagið. Þetta er grunnurinn að því að börnin okkar finni styrk sinn á fyrstu skólastigum og haldi honum. Styrking tækni- og þróunarsetra eins og FAB LAB VESTMANNAEYJAR , auk öflugs íþrótta- og tómstundastarfs eru gríðarleg tækifæri til að styrkja börnin og einstaklingana og auka gæði í þjónustu við íbúa.“  

Leggur starfshópurinn til að umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið styðji við nýsköpun í Vestmannaeyjum í málum sem heyra undir ráðuneytið. Markmið er að efla enn frekar nýsköpun í Vestmannaeyjum í þágu umhverfisins. 

Lagnakjallari með umferð bíla 

Af öðrum verkefnum eru jarðgöng til Vestmannaeyja efst á blaði.  „Styrking samgangna gerir Suðurlandið að einu atvinnu- og þjónustusvæði. Einnig er mikilvægt að samfélagið haldi vel utan um yngstu kynslóðina sem hvetur ungar fjölskyldur til að búa í Eyjum, njóta nálægðar við alla þjónustu og náttúru,“ segir í skýrslunni og bent á að göng  auðveldi allar lagna- og flutningaleiðir og öryggi þeirra á milli lands og Eyja til langrar framtíðar.  

„Raforka, kalt og heitt vatn og ljósleiðaratengingar myndu fara í gegnum göngin, lagnakjallarann og allt aðgengi væri auðveldara vegna bilana eða viðhalds. Jarðgöng til Eyja skapa tækifæri til þess að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis frá samgöngum og vöruflutningum til og frá Eyjum. Umræða um göng til Eyja hefur staðið yfir í 20 ár. Umræðan hefur að okkar mati verið of fullyrðingasöm og pólitísk og því lítið miðað áfram. Þó hefur, á þessum tíma verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að það er mögulegt að gera slík göng.“