Atli Rúnar Halldórsson, sem er mörgum kunnur í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér nýja bók. Í ítarlegu viðtali segir hann frá tilurð bókarinnar. Gerir upp við fréttastofu RÚV þar sem hann vann í 13 ár. Segir hvers vegna hann varð blaðamaður og rithöfundur en ekki kjötiðnaðarmaður eða röntgentæknir.
„Sagan um Helga prest Árnason á sér nokkurra ára aðdraganda. Fyrstu textadrögin urðu til fyrir um fjórum árum og voru hugsuð til birtingar í bæklingsræfli til dreifingar innan fjölskyldunnar. Svo stækkaði verkið á alla kanta og snemma árs 2022 blasti við að efnið væri tækt í bók með tilheyrandi grúski í dómsskjölum, landsmálablöðum, gögnum á Þjóðskjalasafni, í gagnagrunni íslenskra Vesturheimsfara í Kanada og víðar.
Ýmsar heimildir voru mun nærtækari en aðrar og komu í ljós í kössum og kistlum úr dánarbúi tengdaforeldra minna á efri hæð í húsinu okkar Guðrúnar Helgadóttur. Presturinn var nefnilega langafi hennar og hún fann sendibréf, stjórnarráðsskjöl og jafnvel konungsbréf frá Kaupmannahöfn sem fylltu í myndina, heimildir sem hvergi hefur verið vitnað í áður og enginn vissi raunar að væru til.“
Mynd af söguhetjunni, séra Helga og Árna syni hans, eina barni prestsins sem komst til fullorðinsára. Árni Helgason varð síðar héraðslæknir í Höfðahverfi við Eyjafjörð og síðan á Patreksfirði til loka starfsferils síns.
Atli Rúnar Halldórsson hefur gefið út bókina Mótbyr í Ólafsvík – Meðbyr í Ólafsfirði, sögu prests sem þjónaði á Snæfellsnesi 1882-1908 og eftir það í Ólafsfirði til 1924. Í júnímánuði gaf hann út aðra bók, Fullveldisróður í 40 ár, saga Sjómannafélags Ólafsfjarðar, og segir það hreina tilviljun að tvær bækur hans á sama ári tengist Ólafsfirði.

„Mótbyr“ í titli nýju bókarinnar vísar til endurtekins mótlætis í einkalífi Helga prests. Hann missti fimm börn af alls sex sem hann eignaðist með tveimur eiginkonum, systrum. Sú fyrri dó þrítug. Hitt mótlætið á Snæfellsnesi varðar illskýranlegar ofsóknir sem presturinn sætti af hálfu sýslumannsins í Stykkishólmi, þess hins sama og áður vék Skúla Thoroddsen sýslumanni á Ísafirði úr embætti að undirlagi Magnúsar Stephensen landshöfðingja.

 

Kápa bókarinnar, Mótbyr í Ólafsvík – Meðbyr í Ólafsfirði sem er að koma út.

„Sagan um séra Helga er ólík öllum öðrum verkefnum af þessu tagi sem ég hef glímt við. Ég hef skrifað nokkrar bækur og stuðst mjög við frásagnir fólks sem tengist viðfangsefnunum. Í þessu tilviki var enginn einasti maður á lífi sem upplifði viðburðina, ég var algjörlega háður skriflegum heimildum af öllu tagi. Það var alveg nýtt fyrir mér að geta ekki talað við neinn nema sjálfan mig i vinnsluferlinu.

Mesta andstæðan var sjötíu ára saga Vinnslustöðvarinnar sem út kom milli jóla og nýárs 2016. Þá voru öðlingarnir Hermann Kr. Jónsson og Þór Vilhjálmsson mér til halds og trausts allan tímann og verkfundirnir urðu ein allsherjarskemmtun með skeytasendingum þeirra á milli og hlátrasköllum. Ég var aldeilis ekki einmana í því verkefni.“

– Ertu komin með næstu bók á prjóna nú þegar?
„Nei, nokkrar hugmyndir eru á floti en ekkert umfram það. Ætla að kasta mæðinni og taka því rólega um sinn. Fyrri bókina í ár skrifaði ég og gaf út í samvinnu við Sjómannafélag Ólafsfjarðar en þessi nýútkomna er algjörlega á mínum vegum. Í báðum tilvikum er Svarfdælasýsl forlag sf. útgefandinn, hliðarsjálf sem við systkin frá Jarðbrú í Svarfaðardal stofnuðum á KEA-barnum á Akureyri 2017. Uppátæki sem skrifast á of mikið gin & tóník.

Við höfum gefið út alls 11 bækur, þar af þrjár í ár. Tvær skrifaði ég en Óskar Þór bróðir minn þá þriðju, sögu fyrirtækisins Tréverks á Dalvík. Sú bók kom út núna í lok nóvember. Við ræktum dálítið heimaslóðina, þar á meðal Ólafsfjörð líka enda fæddist mamma okkar þar og ólst upp.

Ég keypti sjálfur stærstan hluta upplagsins af Helgasögu prests, hef gefið vinum og vandamönnum bækur og mjatla afgangnum út á kostnaðarverði næstu vikur og mánuði. Ekkert liggur á. Hverfandi líkur eru á því að bókin muni fást í verslunum enda engin „jólabók“ í neinum skilningi og ég vil prófa fyrirkomulagið „beint frá býli“ i útgáfustarfseminni. Landsmenn geta svo verið alveg vissir um að þessarar bókar verður ekki getið í Kiljunni á RÚV frekar en neins annars sem við höfum gefið út.“

Ekki í náðinni hjá fréttastofu RÚV

– Er einhver ástæða fyrir því?
„Ja, þegar stórt er spurt …! Innanbúðarmaður í höfuðstöðvum RÚV sagði mér reyndar á förnum vegi að sú staðreynd hjálpaði mér ekki við að komast í þætti þar á bæ að ég ynni fyrir Samherja! Ég svaraði því til að þar væru mér fluttar miklar fréttir því ég hefði ekki unnið svo mikið sem eina mínútu fyrir það fyrirtæki sérstaklega en verið hins vegar talsvert í sjávarútvegstengdum málum af ýmsu tagi í áratugi en mest fyrir Vinnslustöðina. „Samherji, Vinnslustöðin … það kemur út á eitt,“ svaraði þá innanbúðarmaðurinn.

Fréttastofan í Efstaleiti hefur skapað sér í furðulegt harðlífisástand í ákveðnum málum og skortir bæði sjálfsgagnrýni og laxerolíu til að hreinsa sig og vinna traust að nýju. Mér er enn ofarlega í huga þegar RÚV fór á stað með Namibíumálið og gerði Fiskidaginn mikla á Dalvík að „Samherjasamkomu“ í ákveðnum og augljósum tilgangi. Ég þekki innviði og allt gangverk Fiskidagsins út og inn. Fullyrðingar RÚV voru dylgjur, bull og faglegt fúsk.

Þegar nú Fiskidagurinn er allur ákvað RÚV að gera endalokum stórmerkilegrar fjöldasamkomu skil í Kastljósi og gerði út leiðangur til að taka upp viðtal við Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóra Fiskidagsins, á Dalvík. Upptakan var löng og þurfti að klippa hana til eins og gengur. Júlli sagði meðal annars að RÚV skuldaði Fiskideginum það enn að biðjast afsökunar á því að hefja Namibíuumfjöllunina á upptöku frá Fiskideginum við Dalvíkurhöfn og súrra Samherja þar inn í. Hvort sem það var nú tilviljun eður ei voru ummælin um afsökunarbeiðnina klippt út og látin hverfa úr viðtalinu! Harðlífinu linnir seint.

Sjálfum var mér afar misboðið forðum af sömu ástæðu og Júlla. Í hópi góðra manna man ég eftir að hafa hreytt út úr mér að nú væri mér skapi næst að strika út 13 ára starfsferil minn hjá RÚV og hafa þar eyðu. Nærstaddur lögmaður horfði þá þegjandi á mig stundarkorn og sagði svo: „Þetta er ekki endilega skynsamlegt. Það gæti litið svo út að þú hefðir hlotið 16 ára dóm fyrir morð, afplánað 13 ár og fengið 3 ár sem afslátt fyrir góða hegðun. Það er þá illskárra fyrir þig að sitja áfram eftir með RÚV á ferilsskránni frekar en bjóða almannarómnum upp á að gerast fyrrverandi morðingi með fangelsisafslátt.“

– Kom aldrei annað til greina hjá þér en að gerast fjölmiðamaður af einhverju tagi?
„Blessaður vertu, ég hafði enga hugmynd um hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Eftir stúdentspróf var ég heima á Jarðbrú og sinnti búverkum einn vetur. Skráði mig svo í nám í röntgenljósmyndun á Borgarspítalanum og hef satt að segja ekki hugmynd um hvernig sú hugdetta kom til! Pabba fannst röntgendæmið alveg út í hött og hvatti mig mjög til að hætta við allt saman. Hann sagði að mér hentaði best að skrifa og ætti að stefna að því að gerast blaðamaður, jafnvel rithöfundur. Það gekk reyndar eftir að ég fékk vinnu sem blaðamaður og menntaði mig síðar í faginu í Osló. Núna er ég í Rithöfundasambandi Íslands og get notað þann starfstitil en er feiminn við það.

Reyndar get ég skotið því inn að ég lærði að úrbeina kjötskrokka á Kjötiðnaðarstöð KEA á Akureyri og vann um hríð við að úrbeina á sláturhúsinu á Dalvík. Ég hef haldið þeirri þekkingu við með því að úrbeina nautsskrokk eða tvo á haustin þegar við systkin náum okkur í vetrarforða í frystikisturnar. Úrbeiningin er eina starfsþekkingin sem orðið hefur mér að praktísku gagni um dagana.

BK230121_2-Prentmidlun-FullveldisrodurI40Ar-Vaks-RasterProof
Fullveldisróður í 40 ár. Sjómannafélag Ólafsfjarðar 1983 – 2023.

Annars hefur allur starfsferillinn verið fólginn í því að skrifa og miðla upplýsingum i einhverju formi, þar á meðal á Vefnum. Ég bjó til að mynda til vefsíðu sem notuð var við að miðla upplýsingum um gang framkvæmda við Hvalfjarðargöng 1996-1998, fyrsta vef sinnar tegundar á Íslandi. Með reynsluna úr Hvalfirði í farteskinu tók ég síðan þátt í því að búa til framkvæmda- og kynningarvef fyrir Kárahnjúkavirkjun á vegum Landsvirkjunar og loks framkvæmda- og kynningarvef fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Í öllum tilvikum notaði ég sjálfur vefina sem tæki til að kynna og upplýsa um viðfangsefnin og breytti innviðum vefjanna í ljósi reynslunnar ef þurfa þótti.

Þetta eru langstærstu vefverkin sem ég hef komið að. Í öllum tilvikum lagði ég línur og útfærði þær með vefhönnuðum og forriturum. Vefir af þessu tagi eru 80% blaðamennska og miðlunarpælingar og 20% tæknivinna. Ég þekki þó nokkur dæmi um að stjórnendur fyrirtækja líti svo á að hönnun og uppsetning vefs sé að flestu eða jafnvel öllu leyti tæknilegs eðlis. Þá fer sjaldan vel og stundum mjög illa.

Ég er heppinn að hafa um dagana unnið með afar færum hönnuðum og tæknifólki, hvort heldur er í prentverki eða vefvinnu. Þar hef ég lært mikið og öðlast dýrmæta reynslu. Vonandi hafa aðrir á sama hátt lært eitthvað af mér. Slíkt samstarf getur ekki orðið annað en gjöfult og árangursríkt.“

• Áhugafólk um bækurnar Mótbyr í Ólafsvík – Meðbyr í Ólafsfirði og Fullveldisróður í 40 ár, saga Sjómannafélags Ólafsfjarðar hafi samband við Atla Rúnar. Tölvupóstfang/símanúmer: [email protected]/899 8820.