Nýlokið er fundi þar sem hluta­fjárút­boð Ísfé­lags­ins var kynnt. Þar kom fram mjög fjölbreytt starfsemi félagsins sem er með starfsstöðvar á fjórum stöðum á landinu og með öflugan flota uppsjávar- og botnfiskskipa. Á fundinum fór Stefán Friðriks­son, fram­kvæmda­stjóri yfir rekstur Ísfélags sem stendur traustum fótum í íslenskum sjávarútvegi.

Ari­on banki, ásamt Íslands­banka og Lands­bank­an­um eru um­sjón­araðilar útboðsins sem hófst á fimmtudaginn og lýkur kl. 14.00 á föstudaginn 1. desember. Ákveðið er að selja 14,5% hlut í fé­lag­inu. Fram kom á fundinum að and­virði söl­unn­ar sé um 16 millj­arðar króna, en miðað við þær for­send­ur má ætla að markaðsvirði fé­lags­ins sé um 110 millj­arðar króna. Bæði ein­stak­ling­um og fag­fjár­fest­um gefst kost­ur á að taka þátt í útboðinu.

Í fram­haldi verður fé­lagið skráð á Aðal­markað Kaup­hall­ar­inn­ar, sem í gær samþykkti að taka bréf fé­lags­ins til viðskipta þann 8. des­em­ber.

Hlut­haf­ar Ísfé­lags Vest­manna­eyja hf. og Ramma hf. í Fjalla­byggð samþykktu samruna fé­lag­anna fyrr á árinu og starfar það und­ir nafn­inu Ísfé­lag hf. Í stjórn fé­lags­ins eru Ein­ar Sig­urðsson,  varaformaður, Gunn­ar Sig­valda­son, Gunn­laug­ur S. Gunn­laugs­son formaður, Guðbjörg Matth­ías­dótt­ir og Stein­unn Marteins­dótt­ir.

Stefán Friðriks­son, er fram­kvæmda­stjóri og Ólaf­ur H. Marteins­son aðstoðarfram­kvæmda­stjóri.

Ísfélag er þriðja stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með 8,9% af úthlutuðum aflaheimildum, tæpum 40 þúsund þorskígildistonnum. Af þeim eru um 22,6 þúsund í bolfiski en 16,7 þúsund tonn í uppsjávartegundum. Stærri eru Brim og Síldarvinnslan.

Ísfélag hf. var stofnað árið 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Félagið gerir út fjögur uppsjávarskip, einn frystitogara, þrjú bolfiskskip og einn krókabát. Félagið er með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum, á Siglufirði, í Þorlákshöfn og á Þórshöfn. Félagið rekur frystihús og fiskimjöls­verk­smiðju í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn, frystihús í Þorlákshöfn og rækjuverksmiðju á Siglufirði.