Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann í Vestmannaeyjum, ákvað í gær að lýsa yfir hættustigi Almannavarna vegna skemmda á neysluvatnslögn sem liggur til Vestmannaeyja. Viðbragðsaðilar hafa komið sér saman um 3 háskastig almannavarna sem taka til allra neyðaraðgerða. Almannavarnastig eru flokkuð eftir alvarleika, umfangi viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila.

Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um almannavarnastig hverju sinni í samráði við við­kom­andi lögreglustjóra ef unnt er og tilkynnir það dómsmálaráðherra. Heimilt er að lýsa yfir almannavarnaástandi þegar neyðarástand er líklegt, er yfirvofandi eða ríkir eða sam­bæri­legar aðstæður eru fyrir hendi.
Reglugerð um flokkun almannavarnastiga 650/2009

Stig alvarleika eru:

  1. Óvissustig
  2. Hættustig
  3. Neyðarstig

Stigkerfi

Skýringarmynd um stigakerfi almannavarna

Aðgerðir geta hafist á óvissustigi (t.d. eldgos), hættustigi eða neyðarstigi (t.d. slys og bráðamengun).

Skýringarmyndin hér að ofan sýnir á heildstæðan hátt samsetningu stigakerfis almannavarna þar sem alvarleiki atburðar er flokkaður í óvissu, hættu, neyð. Umfang í ljósi alvarleika er flokkað í grænt, gult, rautt, svart og þörf á forgangi við boðun flokkuð eftir alvarleika útkalls.

Hættustig (Alert Phase):
Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

Um hættustig er að ræða, dæmi:
Þegar hefja þarf eftirgrennslan eftir fólki sem óttast er um.
Þegar tilraunir til að ná sambandi við skip, loftfar eða fólk hafa ekki borið árangur.
Þegar upplýsingar hafa borist sem gefa til kynna að sjóhæfni skips sé takmörkuð, flughæfni loftfars skert og menn í vanda staddir, þó ekki svo alvarlegar að líkur séu á neyðarástandi.
Ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.
Ef auka þarf viðbúnað og sóttvarnarráðstafanir vegna yfirvofandi farsóttar.