„Jólasíld Ísfélagsins nýtur mikilla vinsælda og hefur magnið verið aukið frá ári til árs vegna mikillar eftirspurnar,“ segir Hildur Hrönn Zoega Stefánsdóttir verkstjóri í Ísfélaginu. Upphaflega var jólasíldin hugsuð fyrir starfsmenn og viðskiptavini Ísfélagsins en frá árinu 2021 hóf Ísfélagið að gefa bæjarbúum síld í tilefni 100 ára afmæli Ísfélagsins og segir Hildur að þau muni halda því áfram. „Vonandi verða bæjarbúar ánægðir í ár því hún er mjög góð eins og alltaf.“ 

Gott að gleðja fyrir jólin

Verkun á síldinni hefst í byrjun nóvember, þar sem hún er skorin í bita og pækluð. Þrem vikum seinna er hún sett í fötur og því tilbúin um mánaðarmótin nóvember – desember. Magnið af síld er um eitt og hálft tonn en hefur aukist frá ári til árs. Í ár var það í fyrsta skipti sem sendar voru 50 fötur til Siglufjarðar vegna sameiningar Ísfélagsins og Ramma ehf, starfsfólk á öllum vígstöðum fær síld. 

Hildur sér um allt framleiðsluferlið og svo sjá starfsmenn um að pakka síldinni. „Þetta er mikil vinna og ábyrgð en það er gott að geta gefið fólki síld fyrir jólin. Upprunalega uppskriftin kemur frá Sjávarútvegsnefnd en henni hefur verið breytt og hún betrumbætt, því við erum ekki lengur að salta í tunnur. Við sjóðum vatnið alltaf og kælum áður en við setjum kryddið í og það er vinur okkar Grímur Kokkur sem sýður vatnið fyrir okkur.“ 

Í ár var síldin var gefin 2. desember í porti Ísfélagsins þar sem bæjarbúar gátu rennt við og gripið sér fötu. Um það bil 500 kíló af síld voru gefin þann dag. 

Bragðlaukar mismunandi milli menningarheima 

Í Ísfélaginu er starfshópurinn orðinn breiðari. Það er því áhugavert og gaman að sjá menningarmun þegar kemur að því hvernig skuli verka síldina. „Fólk frá Úkraínu vill til dæmis bara fá ediksýrusíld, ekki með kryddlegi og margir frá Póllandi líka. Að þeirra mati vilja þeir meira salt og munu þeir því fá síldina þannig verkaða. Íslendingar eru meira í kryddleginum og þessu sæta“ segir Hildur. 

En hvað gerir hana svona góða? „Þetta er leyniuppskrift. Það eru aðeins tveir sem vita uppskriftina en þeir mega aldrei ferðast saman“ segir Hildur að lokum.


Starfsmönnum boðið upp á síld í kaffitímanum.