Tjón á neysluvatnslögn var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær. Fram kom að unnið er að mótvægisaðgerðum vegna skemmda á vatnsleiðslu sem varð þann 17. nóvember. Þær felast aðallega í að tryggja núverandi ástand lagnarinnar og undirbúning fyrir viðgerð og lagningu nýrrar vatnsleiðslu við fyrsta tækifæri. Drög að uppfærðri viðbragðsáætlun liggja fyrir hjá aðgerðastjórn, og snýr hún m.a. að vatnsöflun fyrir Eyjarnar ef tjónaða lögnin myndi bresta.

Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar hafa verið í viðræðum við innviðaráðuneytið um tilfærslu fjármagns sem áætlað var í viljayfirlýsingu ríkisins vegna aðkomu þess að almannavarnaleiðslunni sem var fyrirhuguð 2025.

“Í ljósi tjónsins sem varð á vatnslögninni til Eyja, þá er rétt að upplýsa um að HS Veitur eiga og reka vatnsveituna í Vestmannaeyjum með tilheyrandi réttindum og skyldum eftir sameiningu við Bæjarveitur Vestmannaeyja. Vestmannaeyjabær á vatnsleiðsluna sem liggur í sjó vegna fjárframlags frá ríkinu þegar lögnin var lögð 2008, en HS veitur sjá um viðhald á lögninni skv. samningi og hafa fyrirframgreitt leigu á lögninni til 35 ára,” segir í bókun bæjarráðs um málið.