Bílaáhugamenn í Vestmannaeyjum eru fjölmargir, þegar talið berst að rafbílaáhugamönnum aftur á móti er eitt nafn sem kemur fyrst upp í hugann. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um Davíð Guðmundsson eða Davíð í Tölvun eins og hann er betur þekktur.   


„Drottningarnar“ segir Davíð og á að sjálfsögðu við Tesluna og Suðurey.

Aldrei aftur bensínhák
Hann segist alltaf hafa verið mikill bílaáhugamaður. „Ég, eins og flestir á mínum aldri beið eftir ökuskírteininu á miðnætti 17 ára afmælisdagsins. Minn fyrsti bíll var hinsvegar Vauxhall Viva, sem ég lærði mikið af við að brasa í. Ég hef átt bæði japanska sparneytna bíla og svo einnig ameríska eyðslumikla bíla. Átti t.d. mjög skemmtilegan Dodge Durango jeppa sem eyddi 44 lítrum á hundraði í innanbæjarakstrinum hér heima. Það tók í budduna og þegar ég losaði mig við hann, þá hét ég því að fara aldrei aftur þá leið. 

Fékk fyrstu Tesluna í Eyjum
Hvenær sástu fyrst fyrir þér að eignast rafbíl? „Ég er rafmagnsverkfræðingur að mennt, með M.Sc.E.E. gráðu á veikstraumssviði. Mitt fyrsta verkefni í háskólanum í Álaborg í Danmörku var t.d. að kanna fýsileika á ölduvirkjun á vesturströnd Jótlands. Ég hef fylgst með Tesla frá upphafi, þegar þeir komu fram með rándýra Tesla Roadster bílinn 2008 og svo 2012 með fjöldaframleidda Model S bílinn sem boðaði byltingu í rafbílagerð. Model S kostaði á bilinu 15-20 milljónir og því ekki á allra færi. Eftir það tók við biðin langa eftir Teslu á viðráðanlegu verði eins og Elon Musk, aðaleigandi TESLA hafði lofað. Árið 2017 var hægt að leggja inn pöntun og 3 árum síðar fékk ég draumabílinn Tesla Model 3.“  

Um var að ræða fyrstu Tesluna í Vestmannaeyjum og er óhætt að segja að Davíð hafi verið ánægður með gripinn. „Í byrjun september 2021 skipti ég svo yfir í Tesla Model Y og seldi Hjalta Enok ökukennara Model 3 bílinn, þannig að ungmenni Eyjanna geta nú lært á nýjustu rafbílatæknina.“  

Kína að taka yfir markaðinn
Davíð segist fylgjast vel með því hvað er að gerast í þessum rafbílaheimi og þar sé ýmislegt spennandi að gerast. „Þessi geiri er afar spennandi og gríðarlega margt að gerast. Því miður virðast stóru framleiðendurnir vera að sitja eftir, svipað og gerðist þegar japönsku sparneytnu bílarnir yfirtóku markaðinn. Nú sitja þeir eftir ásamt risunum vestan hafs og í Evrópu, því nú eru það kínverjarnir sem eru að taka völdin.  Í Kína eru yfir 300 rafbílaframleiðendur og er sá stærsti, BYD, farinn að narta í hæla TESLA, hvað fjöldann varðar.“  

Bíllinn smíðaður utan um tölvuna
Davíð segir þó að Tesla hafi yfirburði í þessum geira. „Tesla er að sjálfsögðu í forystu og eru lengst komnir hvað varðar tækni og öryggi bílanna, en allar tegundir Tesla bíla hafa fengið hæstu öryggiseinkunn eftirlitsstofnana. Nálgun TESLA var að byggja bíl utan um tölvu og rafhlöðu, en ekki að skipta bílvél út fyrir rafmótora. T.d. er tölvan í venjulegri Teslu það fyrsta sem fer í grind bílsins og svo fylgist tölvan með öllu framleiðsluferlinu og lætur vita ef eitthvað fer úrskeiðis. Tölvan í Teslubílum er það öflug að hún framkvæmir fleiri aðgerðir á sekúndu, eða  10 TeraFLOPS (10.000.000.000.000 Floating Point Operations per second) sem er margföld samanlögð reiknigeta allra netþjóna hjá fiskvinnslufyrirtækjunum í Eyjum og Vestmannaeyjabæ. Tölvan verður öflugri og öflugri og þegar að Tesla gefur út uppfærslur á hugbúnaði, þá má segja að maður „download“i nýjum bíl í hvert skipti. Gríðarleg þróun í gervigreind er lykillinn að sjálfkeyrandi bílum og það er styttra í það en margir halda.“ 

Davíð segir nýjustu tölur Samgöngustofu sýna yfirburði TESLA á rafbílamarkaði. Þar kemur fram að fjöldi hreinna rafbíla er kominn yfir 27.000 á Íslandi og þar af eru Teslur 6.315. „Tesla Model Y er langvinsælasti rafbíllinn enda fá menn mest fyrir peninginn í kaupum á honum. Model 3 er svo í 3. Sæti á eftir hinum vinsæla Nissan Leaf. Í Vestmannaeyjum eru 196 rafbílar, þar af 42 Teslur og 342 tengiltvinn bílar. Það ótrúlegt að á Heimaey séu 2.264 bifreiðar í umferð.“ 


Davíð hafði milligöngu um uppsetningu á hleðslustöðvum á Básaskersbryggju þar sem hægt er að hlaða í boði Herjólfs.

Vill Vestmannaeyjar sem tilraunasveitarfélag
Davíð segir bílana nota gervigreindina til fulls og því séu möguleikarnir fjölmargir. „Teslur eru með 9 myndavélar, 8 sem fylgjast með umhverfinu utan bílsins og 1 sem vísar inn á við og fylgist með / lærir af ökumanninum að keyra bílinn. Allar Teslur eru nettengdar, þannig er engin þörf á þjónustuskoðunum, þar sem að bíllinn/tölvan lætur bílstjórann vita ef eitthvað kemur upp á. Fjöldinn á heimsvísu er að nálgast 2 milljónir og er gervigreindin hjá Tesla að safna upplýsingum úr öllum þeim bílum sem eigendur leyfa.  Ég sé fyrir mér að Vestmannaeyjar gætu orðið fyrstir til að bjóða upp á sjálfkeyrandi farartæki á götum bæjarins, svona einskonar tilraunasveitarfélag. Við ættum m.a.s. að gera út á það að vera tilraunasamfélag, þar sem við erum ákveðinn þverskurður af þjóðinni. Hér er höfn og flugvöllur (lítið notaður), öll skólastig, þokkalega fjölbreytt atvinnulíf, með flestar gerðir af þjónustu og tómstundum og stækkandi fjölþjóðlegt samfélag. Ég sé fyrir mér, eftir einhver ár, nokkrar sjálfkeyrandi sendibifreiðar með sæti fyrir 6-8 manns sem færu rúntinn um Eyjuna og fólk pantar far frá A til B með Appi í gemsanum. Það gæti dregið úr þörf á bíl númer tvö á mörgum heimilum. Rafhlöður rafbíla fara stækkandi og drægni eykst og gera menn ráð fyrir að 500km drægni sé ákjósanleg til að komast hvert á land sem er án of margra hleðslustoppa. Það eru rafhlöður sem geymt geta 75-100kWst (kíló-Watt-stundir). Svo kölluð V2G tækni (Vehicle-to-Grid) er svo á næsta leiti þar sem rafbíllinn getur skilað orkunni til baka inn á dreifikerfið. Lauslega útreiknað gætu 100 Teslur haldið rafmagni á öllum heimilum í Eyjum í um eina klukkustund í venjubundnu rafmagnsleysi.“ 


Davíð seldi Hjalta Enok ökukennara Model 3 bílinn, þannig að ungmenni Eyjanna geta lært á nýjustu rafbílatæknina.

Gefið rafmagn fyrir eina og hálfa milljón
Davíð tók upp á því í júní árið 2020 að koma upp 11kW heimahleðslustöð sem staðsett er á bak við Strandveg 50, beint á móti verslun Tölvunar. Stöðin er opin öllum rafbílaaeigendum án endurgjalds. Hvað rekur mann í að setja upp rafhleðslustöðvar fyrir almenning og borga sjálfur reikninginn? „Það var nú bara vöntunin á stöðvum. Þegar Tölvun byrjaði að gefa rafmagn á fyrstu stöðinni þá var ein stöð fyrir, uppi við Hótel Vestmannaeyjar. Ég frétti af rafbílaeigendum sem ætluðu að nota helgi í Eyjum og voru búin að panta á hótelinu en hættu við þar sem að hleðslustöðin var biluð. Það þótti mér ótækt og ákvað að opna fyrir þessa fyrstu stöð mína. TESLA þjónustumiðstöðin fékk veður af þessu og bauð okkur tvær stöðvar í viðbót án endurgjalds. Þannig að við settum upp þrjár heimahleðslustöðvar eða svokallaðar TESLA Destination Charging, stöðvar. Ég hafði svo milligöngu um að koma þremur slíkum stöðvum upp á Básaskersbryggju, við ljósamastrið, þannig að þar eru þrjár stöðvar sem bjóða fría hleðslu (í boði Bæjarins/Herjólfs) á allar gerðir rafbíla eins og hjá okkur.“ Davíð segir notkunina töluverða á stöðvunum við Strandveg. „Við vorum að skríða yfir 100.000 gefnar kWst og kostnaðurinn því kominn í 1,5 milljónir. Við erum að kanna möguleikann á að bjóða valfrjálsa greiðslu 500kr til að hafa fyrir kostnaði.“ 


Hleðslustöðin við Tölvun þar sem rafbílar hafa verið hlaðnir fyrir hálfa aðra milljón í boði Tölvunar

Breytingar í kortunum
Frá og með næstu áramótum munu skattaívilnanir tengdar rafbílum falla úr gildi. Einnig er stefnt að innleiðingu kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem hafa hingað til borið takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins. Hvernig leggjast fyrirhugaðar breytingar í Davíð? „Það hlaut að koma að þessu. Auðvitað eiga allar bifreiðar að greiða fyrir notkun. Það er þó þjóðhagslega hagkvæmt að nota okkar hreinu orku í stað innflutts eldsneytis, en á móti kemur að rafbílar eru almennt þyngri en bensínhákarnir.“
  Hvaða skref vilt þú sjá næst í rafbílamálum á Íslandi? „Það er náttúrulega FSD (Full Self Driving) sjálfkeyrandi bílar. En þá þarf hið opinbera að bretta upp ermar og gera það mögulegt. Í dag er það samkvæmt lögum og reglum, bannað. Teslan býður upp á þetta, en þó þannig að bílstjórinn þarf að halda í stýrið. Ég nota þetta mikið á keyrslu milli Landeyja og Reykjavíkur, Teslan les öll hraðaskilti og hægir á og gefur í eftir því. Hún er reyndar vonlaus í íslenskum hringtorgum. Einnig verður spennandi að sjá V2G lausnina komast í gagnið auk Robo-Taxi hugmyndar Musks sem snýst um það að eigandi getur „leigt út“ Tesluna sína á meðan hann er t.d. í vinnu. Það myndi virka svona svipað og Hopp rafskutlurnar, nema að bíllinn kæmi sjálfur til notandans.“