Árið 2023 voru fjarlægðir 340 þúsund rúmmetrar af sandi í og við Landeyjahöfn sem er hundrað þúsund rúmmetrum meira en árið 2022. Þrátt fyrir það hefur Landeyjahöfn verið ófær að hluta eða öllu leiti, vegna dýpis eða veðurs, 134 daga árið 2023 samanborið við 108 daga árið á undan. Skýringin felst í mun meiri efnissöfnun við höfnina vegna stöðugrar austan öldu.

Haustið 2023 hefur verið heldur óvenjulegt við Suðurströndina. Það hefur einkennst af stöðugri austan öldu sem hefur í för með sér töluvert meiri efnisflutning framan við Landeyjahöfn en í venjulegu ári. Reynslan sýnir að í austanátt safnast mun meira efni í kerfið í kringum Landeyjahöfn vegna aurburðar við ós Markarfljóts. Þá vegur einnig þungt að ós Markarfljóts hefur færst til og er í dag mun nær höfninni en áður. Undanfarin ár hefur Markarfljótið verið í um tveggja til tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá höfninni en er í dag einungis í um eins kílómetra fjarlægð.

Vegagerðin samdi við Björgun um vetrardýpkun í Landeyjahöfn en stefnan er ávallt að halda höfninni opinni eins lengi og hægt er. Björgun var lægstbjóðandi í útboði og hafði auk þess keypt skipið Álfsnes sem er afkastamikið skip og uppfyllir útboðskröfur. Nokkur vandamál hafa komið upp varðandi skipið sem líklega má rekja til skorts á nauðsynlegu viðhaldi hjá fyrri eiganda. Að sögn Björgunar sér fyrir endann á þeirri stöðu enda hefur mikið viðhald farið fram á skipinu.

Í útboði Vegagerðarinnar var gert ráð fyrir að afkastamikið dýpkunarskip ætti að geta opnað höfnina á einum til tveimur dögum með því að dæla upp um 12 þúsund rúmmetrum á sólarhring. Afköst allra dýpkunarskipa verða hins vegar takmörkuð þegar grunnt er í höfninni og sæta þarf færis milli flóðs og fjöru. Þannig getur skipið aðeins unnið sex tíma á dag þegar dýpið er um 3,5 til 4 metrar og gefur auga leið að það minnkar afkastagetuna. Annar þáttur sem hefur áhrif er að á flóði, þegar hægt er að dýpka, siglir Herjólfur tvær ferðir í höfnina. Í hvert sinn þarf dýpkunarskipið að víkja fyrir ferjunni og tekur það ferli um klukkustund.

Dýpkunarskipið getur ekki athafnað sig þegar ölduhæð er yfir 1,5 m, vindur yfir 10 m/s og þarf að sæta lagi milli flóðs og fjöru þegar dýpi í hafnarmynninu er undir 5 m.  Um leið og dýpi er meira en fimm metrar og veður ásættanlegt eru afköst Álfnes fullnægjandi.

Gagnrýnt hefur verið að dýpkunarskipið hafi ekki verið við í Landeyjahöfn í haust þegar fyrstu lægðirnar gengu yfir og höfnin fylltist af sandi. Það kom starfsfólki hafnadeildar Vegagerðarinnar á óvart hversu hratt höfnin fylltist í þessum austlægu áttum, en það gerðist mun hraðar en fólk hafði áður séð. Aðstæður í höfninni voru mjög góðar fyrir þessa lægð og ekki þótti ástæða til að hafa áhyggjur af henni. Dýpkunarskipið var því í upphafi tímabilsins í verkefni á Ísafirði og var ekki kallað til fyrr en ljóst var í hvað stefndi.

Bent hefur verið á að auka þurfi kröfur um við hvaða skilyrði dýpkunarskipið geti athafnað sig. Slíkt er ekki hægt og byggist það á reynslu þriggja reynslumikilla dýpkunarverktaka, JDN, Rhoede Nielsen og Björgun. Vegagerðin fylgist að auki stöðugt með hvort verktaki sé við störf þegar viðrar til dýpkunar.

Gagnrýnt hefur verið að dýpkunarskipið liggi við bryggju í Þorlákshöfn sem lengi viðbragðstíma. Það er mat sérfræðinga Vegagerðarinnar að svo sé ekki. Með góðum veðurspám er vitað með nokkrum fyrirvara hvenær veðurgluggi gefst til dýpkunar og því hægt að senda skipið til Landeyjahafnar í tæka tíð.

Í útboðsgögnum er kveðið á um að Vegagerðin hafi heimild til þess að sekta verkaka fyrir að vera ekki við dælingu ef aðstæður eru í lagi. Vegagerðin hefur ekki þurft að beita því sektarákvæði. Það er ekki hagur dýpkunarverktaka að sitja við bryggju enda kveður samningurinn á um að hann fái ekki greitt nema dýpka. Hins vegar getur dæluskipið verið frá ef það er bilað eða sinna þarf viðhaldi á því.

Botndælubúnaður var keyptur fyrir Landeyjahöfn fyrir nokkrum árum en áður en hann var settur upp þótti ljóst að hann myndi ekki koma að nógu góðum notum. Slíkur búnaður hefði ekki hjálpað neitt í þeim aðstæðum sem uppi hafa verið í vetur. Mesti sandurinn hefur safnast fyrir um 80 metra framan við hafnarmynnið og dælubúnaðurinn hefði ekki náð þangað. Aðeins er hægt að nota slíkan dýpkunarbúnað í góðu veðri en afkastagetan er samt aðeins um 2000 rúmmetrar á dag. Þá er ekki hægt að vera með dýpkunarskip og dælubúnað að störfum á sama stað í einu. Þar sem dýpkunarskip er mun afkastameira er það augljósari kostur.

Veðrið í haust hefur því orðið til þess að illviðráðanlegt hefur verið að halda dýpinu nægjanlegu í Landeyjahöfn. Þrálát austanátt sem er ólík veðurfari undafarinna ára, spilar stærstan þátt. Eftir hverja dýpkunarlotu hefur höfnin fyllst að nýju á skömmum tíma þrátt fyrir fremur saklaust veður. Miðað við það sem Vegagerðin hefur getað skoðað eru líkur á veðurfari sem þessu á 5-8 ára fresti þó auðvitað sé ekki á vísan að róa þegar náttúran á í hlut. Þetta veðurfar hefur valdið því að Herjólfur hefur ekki getað siglt til Landeyjahafnar eins oft og helst væri kosið og nýtingarhlutfall hafnarinnar því miður verið lægra en oft áður.

Tekið af vef vegagerðarinnar