Hugljúf athöfn fór fram við lok messu síðastliðinn sunnudag í Landakirkju þegar Marý Njálsdóttur var veittur þakklætisvottur fyrir störf sín fyrir Landakirkju. Marý starfaði lengi með kór Landakirkju og hún var einnig meðlimur í kvenfélaginu en auk þess sem hún hefur haft umsjón með altari kirkjunnar.

„Marý var ekki nema 14 ára þegar hún byrjaði að syngja í kirkjukórnum og hún söng með kórnum alveg þangað til hún varð sjötug. Hún hefði pottþétt getað sungið mun lengur, enda hefur hún gjarnan sungið með kórnum þegar við förum inn á Hraunbúðir með helgistundir,“ sagði sr. Guðmundur Örn Jónsson í samtali við Eyjafréttir.

„Hún er einnig búin að starfa með Kvenfélagi Landakirkju í áratugi. Ég man þegar ég kom hingað til Eyja fyrir rúmlega 17 árum, þá sagðist hún vera partur af “ungliðadeild” kvenfélagsins. Síðustu árin hefur hún séð um altarið og munina á altarinu og passað upp á að þar sé allt eins og það á að vera.“ Guðmundur segir starf vináttu Marý hafa verið sér mikils virði. „Þessi einstaka manneskja hefur gefið kirkjunni sinni svo ótrúlega mikið af sér og tíma sínum og hefur notið hvers augnabliks í þessari þjónustu. Þess vegna má segja að nú séu tímamótin mikil, bæði í lífi hennar og í sögu kirkjunnar.“