Með hækkandi sól er það fastur liður að fermingar hefjist í Landakirkju. Fyrsti fermingardagur er 6. apríl en sá síðasti 19. maí. Sr. Viðar Stefánsson segir að 45 börn komi til með að fermast frá Landakirkju í ár. „Þetta er svipaður fjöldi og að öllum líkindum svipað hlutfall og síðustu ár. Hvert ár ákveða næstum allir að fermast hjá okkur sem er mikið gleðiefni. Börn af erlendum uppruna hafa flest fermst áður hjá kaþólsku-kirkjunni en þau fermast yngri heldur en hjá okkur.“ 

 Viðar segir fermingar og fermingarbörn setja töluverðan svip á kirkjuárið hverju sinni. „Fermingarbörnin koma til okkar í lok september eða byrjun október og fermast eftir páska. Þau eru því a.m.k. helming ársins hjá okkur en ganga í gegnum helstu stórhátíðir kirkjunnar, t.d. jól og páska. Síðan buðum við upp á fermingu á hvítasunnudag fyrir nokkrum árum og hann er kominn til að vera. Það hafa yfirleitt verið stærstu fjölmennustu fermingarnar okkar.“ 

 Hvað stendur upp úr hjá þér að vinna með fermingarbörnum? „Það vekur alltaf athygli mína hvernig fermingarbörnin sjá heiminn og samfélagið fyrir sér. Þrátt fyrir að þau séu enn börn þá hafa þau alveg sínar skoðanir og mat á því hvernig hlutirnir eigi að vera. Það verður manni huldara eftir því sem maður verður eldri og því er gott að geta komið auga á ýmislegt í gegnum þau.“ 

 Viðar vildi að endingu  hvetja fermingarbörn og foreldra að hafa nokkra hluti í huga í aðdraganda ferminga. „Helst að foreldrar geri ekki of mikið úr fermingardeginum sjálfum. Að allt umstang í kringum daginn skyggi ekki á það sem fermingardagurinn gengur út á. Fermingardagurinn á að vera góður og eftirminnilegur dagur sem á að njóta með sínum nánustu. Enn fremur að fermingarbörnin hjálpi til við undirbúning og skipulag dagsins og veislunnar. Það hjálpar og gleður alla.“