Gísli Matthías – Í kvöld er fundur!

Mig langaði að skrifa smá hugvekju um opnun veitingastaða hér í Vestmannaeyjum í tilefni þess. Umræðan um opnunartíma veitingastaða hér í Vestmannaeyjum verður alltaf háværari og hávæari. Enda ekki skrítið, það er glatað að lang-flestir séu með lokað. En hver er ástæðan? Viljum við veitingamenn bara fleyta rjóman af sumrinu og chilla yfir veturinn með vasa fulla af peningum? Helvíti næs!

Staðan er ekki þannig svo sannarlega. Mjög langt frá því meira að segja. Okkar fyrirtækji standsetti húsnæðið að Strandvegi 79, beint á móti Slippnum, með það markmið að vera með heilsárs veitingarekstur árið 2020. Draumurinn var að vera með heilsársvinnu hér í Vestmannaeyjum.

Fyrst sem hamborgarastaðurinn éta og nú sem Næs. Við reyndum tvo vetra af éta (að hluta til inná brothers) og svo tvo vetra á næs.

Á þeim tíma gerðum við ýmislegt og prufuðum margt. Það var svo í maí á síðasti ári sem ég og við sögðum hingað en ekki lengra. Þá var reksturinn kominn í 25 milljónir í yfirdrátt og ógreidda reikninga og enn með COVID lánið hangandi yfir okkur sem aðrar skuldbindingar. Á þessum tíma hélt ég marg-sinnis að við værum að fara undir, værum að missa allt sem við höfðum unnið að í 12 ár og bölvaði sjálfum mér að hafa tekið rangar ákvarðanir aftur og aftur og aftur.

Mætum í kvöld

Þegar sumarið kom loks var orkan í lágmarki en við héldum áfram að berjast og berjast og rétt náðum með dugnaði og elju bæði okkar og starfsfólks að losna við yfirdráttinn og ógreiddu skuldirnar. Við rekum stór húsnæði og það kostar yfir veturinn, svo næsta sumar byrjum við pottþétt í mínus en vonandi ekki í líkingu við síðasta vetur.

Afhverju er þetta svona? Afhverju getur reksturinn ekki gengið yfir vetrarmánuðina? Nr. 1 – 2 – 3 – 4 eru samgöngur. Traustið er brostið, það kemur enginn ferðamaður, nánast ekki aðrir íslendingar yfir veturinn útaf endalausri óvissu um þær. Svo er það þannig…. Að þegar höfnin virkar yfir veturinn þá snýst málið upp í andhverfu sína; við Vestmannaeyingar förum uppá land og nýtum okkur ekki þjónustu hér heldur annarsstaðar. Hvort sem það sé í höfuðborginni eða erlendis.

Nr. 5 – Það þurfa fleiri að nýta sér þegar veitingastaðir eru opnir en eins og staðan er þá skil ég fólk vel að halda að sér höndum. Lánin okkar allra hafa farið sífellt hækkandi, búðarkarfan er orðin rosalega dýr. Hitakostnaður er margfaldur á við önnur sveitarfélög. Fólk getur hreinlega ekki leyft sér jafn mikið og áður.

Ég hvet alla Vestmannaeyinga að mæta í kvöld og mótmæla hressilega því grunnurinn á okkar vandamálum eru samgöngur. Til að taka allan vafa af, því margir hafa komið að máli við mig, bæði næs og Slippurinn munu opna í sumar og okkur hlakkar mikið til.

 

Gísli Matthias Auðunsson, veitingamaður.