Á fundi Bæjarráðs fór Bæjarstjóri yfir svör frá Flugfélaginu Erni vegna fyrirspurnar til flugfélagsins um tegundir flugvéla sem notaðar hafa verið i flugferðir til Eyja frá áramótum, sætaframboð og nýtingu sæta. Jafnframt hvort og þá hvenær áætlað sé að hefja flug til Eyja á föstudögum.

Í svörum frá flugfélaginu kom fram að frá áramótum hefur verið notast við 9 og 32 sæta vélar þar sem 19 sæta vélin, sem samningur við Vegagerðina tekur til, er í viðhaldi fram í miðjan febrúar. Reynt hafi verið að nota 32 sæta vélina á álagstímum. Frá því flug hófst um miðjan desember hefur nýting sæta verið um 50% en fer upp í 61% ef eingöngu er horft til 19 sæta vélarinnar.

Bæjarstjóri óskaði eftir því við ráðherra þann 24. janúar sl. að flugferðum yrði bætt við, ekki hefur enn orðið að því. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum óskuðu eftir nýrri dagsetningu fyrir samgöngufund og verður fundurinn haldinn miðvikudaginn 13. mars nk.

Bæjarráð óskar eftir því að ráðherra tryggi að flug verði út apríl og ferðum fjölgað eins og um hefur verið rætt á fundum með ráðuneytinu. Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir upplýsingum um hvar útboð á ríkisstyrktu flugi sé statt fyrir næsta vetur. Ekki má draga málið enn einu sinni þar til málið brennur inni á tíma.