Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við fiskifréttir að tvö af skipunum í yfirstandandi loðnuleitarleiðangri hafi þurft að gera hlé á rannsókninni vegna veðurs. Þetta eru Heimaey VE og Polar Ammassak sem eru nú við Ísafjörð.

„Vonandi komast þeir út í kvöld eða með morgninum. Planið er að þeir haldi áfram í kantinum út af Vestfjörðum þar sem Polar þurfti að hætta. Heimaey myndi líka taka grunninn þar,“ segir Guðmundur.

Ásgrímur dekkaði austursvæðið

Þriðja leiðangurrskipið, Ásgrímur Halldórsson SF, hefur lokið sínum þætti. „Þeir eru búnir að dekka allt þarna fyrir austan og norðan sem við ætluðum að dekka,“ segir Guðmundur sem kveðst ekki geta sagt til um hvað hægt hefur verið að lesa í þær upplýsingar sem þegar hafi verið aflað. Það verði að bíða þar til farið hafi verið yfir öll svæðin.

„Það er ekki mikið eftir. Það tekur kannski sólarhring að dekka það,“ segir Guðmundur. Eftir það þurfa ekki að líða langur tími þar til hægt sé að gefa út niðurstöðu. „Það fer eftir því hvernig þetta lítur út og auðvitað er byrjað að vinna í því sem við höfum núna. Það gæti verið komið eitthvað á miðvikudaginn.“