Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra hefur farið þess á leit við óbyggðanefnd að hún endurskoði afstöðu sína vegna kröfu ríkisins í Vestmannaeyjar.

Þetta kemur fram í aðsendri grein ráðherrans á Vísi. Þar segir Þórdís fréttir síðustu daga hafa bent til þess að hún hafi persónulega ákveðið að sölsa undir sig eyjar á Breiðafirði, Vestmannaeyjar, Grímsey og fleiri eyjar í kringum Ísland.

„Ég skil að mörgum hafi brugðið og því er rétt að taka af allan vafa strax: Hvorki ég né ríkið höfum það að markmiði að sölsa undir okkur eyjar landsins sem eru í einkaeigu. Kjarni málsins er að verið er að framfylgja skrefi 17 af 17 samkvæmt lögum frá árinu 1998 sem að þvert á móti snýst um að eyða óvissu um eignarréttindi lands.“