Þjóðlendukröfur íslenska ríkisins voru til umræðu á fundi bæjarráðs á miðvikudag. Þar kom fram að Vestmannaeyjabær undirbýr nú kröfur til óbyggðanefndar í allt það landsvæði á Heimaey, auk eyja og skerja sem tilheyra Vestmannaeyjum og fjármála- og efnahagsráðherra hefur gert kröfu í. Bæjarráð mun ráða lögfræðinga til að fara með kröfur Vestmannaeyjabæjar í málinu en allur málskostnaður er greiddur af ríkinu. Þá mun Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss, aðstoða við gagnaöflun.

Bæjarráð samþykti samhljóða í niðurstöðu sinni um málið að ráða Ólaf Björnsson og Jóhann Pétursson sem lögmenn Vestmannaeyjabæjar til að fylgja kröfum Vestmannaeyjabæjar eftir. Bæjarráð ítrekar áskorun sína til fjármála- og efnahagsráðherra að kröfur ríkisins verði dregnar til baka.