Óhapp varð við verslunina Sölku í morgun stuttu eftir opnun, þegar bíll ók inn um glugga verslunarinnar. Tveir menn voru í bílnum og ekki er ljóst hvað gerðist nákvæmlega. “Ég stóð hérna rétt hjá að tala við viðskiptavin þegar þetta gerðist. Húddið kom allt hérna inn um gluggann með töluverðum látum. Það er ljóst að glugginn í heild sinni er ónýtur og þarf að skipta um hann,” sagði Svava Tara Ólafsdóttir eigandi verslunarinnar í samtali við Eyjafréttir.

Hún segir að verslunin verði lokuð í dag og óvíst með morgunn daginn. “Það þarf að loka þessu og þrífa hérna síðan eigum við eftir að fara yfir allar vörur sem voru þarna næst. Mér sýnist í fljótu bragði að það hafi sloppið en við þurfum að fara vel yfir það. Mestu máli skiptir að það urðu ekki slys á fólki.” Svava Tara benti þeim sem vilja versla fatnað í dag á heimasíðu sína salkaverslun.is.