Í dag klukkan 9:00 hefst forsala á Þjóðhátíðina og um leið opnar Herjólfur fyrir bókanir daganna 1.-6.ágúst nk. á www.herjolfur.is og www.dalurinn.is. Siglingaáætlun Herjólfs yfir Verslunarmannahelgina má sjá hér https://herjolfur.is/aaetlun.

Í tilkynningu frá Herjólfi kemur fram að ÍBV hafi frá árinu 2011 keypt miða af rekstraraðilum Herjólfs í ákveðið hlutfall í skilgreindar ferðir á þessu tímabili og endurselt þær á heimasíðu sinni. ÍBV kaupir ekki alla miða sem í boði eru og ekki alla miða í neina ferð skipsins. Herjólfur selur því eins og venjulega miða fyrir einstaklinga og farartæki í allar áætlunarferðir sínar ásamt því að auka framboð ferða til muna. Enginn þarf að kaupa miða á Þjóðhátið til að ferðast með Herjólfi. Oft er uppselt heilu og hálfu dagana í ferðir Herjólfs með löngum fyrirvara, það á ekki bara við um Verslunarmannahelgina.

“Ástæðan fyrir því að þetta fyrirkomulag var sett á árið 2011 er sú að áður voru einstaklingar að kaupa marga miða í margar ferðir og hratt seldist upp í allar ferðir til og frá Eyjum. Mikið „brask“ varð með miða á internetinu og á endandum var farþeganýting í ferðir sem voru uppseldar léleg. Það er ekki bara mikilvægt fyrir Herjólf ohf. að samgöngur gangi vel þessa helgi, heldur allt samfélagið hér í Vestmannaeyjum.”