Það er flestum sameiginlegt að hafa samkennd og samúð með fólki, sem lífið hefur sett á hvolf. – Hugsum okkur fólkið í Grindavík, sem hefur valið sér þann frábæra stað til að búa á, byggt sér þar hús, eignast samfélag, staðið saman í blíðu og stríðu, og unað sér þar með vinum og fjölskyldum. – Allt í einu er allt lífið sett á hvolf. – Við sem áttum okkar heimili og samfélag í Eyjum, þegar Heimaeyjargosið setti allt okkar líf á hvolf, höfum eflaust mörg hver endurupplifað það, þegar hamfarirnar í Grindavík hófust, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Grindvíkingar þurftu að yfirgefa heimili sitt í Grindavík, sinn vinahóp, vinnuna, samfélagið sitt. Óvissan um næstu framtíð er kannski verst. Fjárhagur margra og sálarheill í uppnámi. – Þetta skiljum við Vestmannaeyingar eftir svipaða upplifun í Eyjagosinu. En þá stóðum við ekki ein. Mikil samkennd tók á móti okkur, strax á bryggjunni í Þorlákshöfn. Móttökur og viðmót sem við seint getum þakkað.

Ástandið í Grindavík og andleg og veraldleg líðan íbúanna þar, snertir mann, kannski meira en ella eftir okkar lífsreynslu og vanlíðan í Heimaeyjargosinu.

Margir hafa nú þegar lagt Grindvíkingum lið, með ýmsum hætti, hvort sem er með fjárstuðningi eða öðrum hætti. – Við Vestmannaeyingar eigum líka skuld að gjalda fyrir stuðninginn í Heimaeyjargosinu, sem við seint getum fullþakkað.

Nokkur hópur Eyjafólks hefur staðið fyrir fjársöfnun til handa Grindvíkingum og hafa mörg fyrirtæki í Eyjum lagt þeirri söfnun lið með fjárframlögum.

Næsta föstudag, 3. maí kl. 20.00 verður tónlistarveisla í Höllinni, undir yfirskriftinni: HEIM Á NÝ. Þar mun tónlistarfólk úr Eyjum og víðar, bjóða uppá styrktartónleika fyrir Grindvíkinga.,- og rennur allur inngangseyrir óskertur til Grindvíkinga.

Ástæða er til að hvetja fólk til að fjölmenna í Höllina á föstudagskvöldið og þótt viðkomandi geti ekki komið, að taka þátt með því að kaupa miða.

– Miðasala er á Tix.is – í Tvistinum og á Kletti. – Miðaverð er kr. 5.000