Aðsend grein:

Snemma árs 2023 var undirritaður samningur milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um samræmda móttöku flóttamanna í Vestmannaeyjum. Í samstarfi við stjórnvöld var gert ráð fyrir komu allt að 30 einstaklinga á flótta frá Úkraínu. Vinnumálastofnun er hluti af samstarfinu og hefur það hlutverk meðal annars að veita flóttamönnum stuðning í atvinnuleit.  

Góð og markviss samvinna er lykill þess að móttaka takist vel. Starfsmaður velferðarþjónustunnar í Vestmannaeyjum er tengiliður við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á Suðurlandi og hefur reglulegt samstarf verið þeirra á milli frá því fyrsti hópur Úkraínumanna steig á land í Vestmannaeyjum, um miðjan febrúar 2023. Meginmarkmiðið er að útvega fólkinu atvinnu í samræmi við hæfni þess og óskir.  

Alls hefur 33 flóttamönnum verið vísað til Vinnumálstofnunar í atvinnuleit í Vestmannaeyjum. Þar af hafa 23 staldrað við og allir þeirra fengið atvinnu. Af heildinni hafa tíu flóttamenn ýmist flutt til annarra landshluta eða snúið aftur heim. Enn aðrir hættu í starfi en fengu jafnframt aðra vinnu á staðnum eins og almennt gengur og gerist. Þegar þessi orð eru skrifuð er starfandi 21 flóttamaður í Eyjum og margur þegar fastráðinn.  

Ráðgjafi Vinnumálastofnunar hefur upplifað mikinn samstarfsvilja í samskiptum við fyrirtæki og stofnanir bæjarins og ráðningar gengið vonum framar. Þannig hefur flóttafólk verið ráðið til starfa hjá Ísfélaginu og Vinnslustöðinni, Grími kokki, á Pizza 67, á gistiheimilinu Hamri, Hótel Vestmannaeyjum, Gott, hjá ÍBV, við heimaþjónustu hjá bænum og dagdvöl aldraðra, hjá Daða Páls, í upplýsingamiðstöðina, við höfnina og á bifreiðaverkstæði.  

Það er ekki ofsögum sagt að Eyjamenn ganga hér á undan með góðu fordæmi og mín trú er sú að samstarfið muni áfram vera árangursríkt og öðrum til fyrirmyndar.   


Kristín Arna Hauksdóttir, forstöðumaður Vinnumálstofnunar á Suðurlandi.