Fyrri umræða um ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið í fyrra fór fram í liðinni viku.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri gerði þá grein fyrir ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2023 í framsögu. Jafnframt gerði hún grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins.
Fjárfestingar fjármagnaðar af eigið fé
Í bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista segir að rekstrarniðurstaða Vestmannaeyjabæjar á árinu 2023 sé afar góð. Niðurstaða samstæðu bæjarins (A- og B- hluta) er jákvæð um 564 m.kr. sem er um 400 m.kr. umfram áætlun og 530 m.kr betri en árið á undan.
Rekstrarafkoma A- hluta er jákvæð um 231 m.kr og um 409 m.kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði sem sýnir að rekstur bæjarins er sjálfbær í erfiðu rekstrarumhverfi sveitarfélaga. Fjárfestingar bæjarins hafa aukist á árinu og þær hafa allar verið fjármagnaðar af eigið fé og ekki hefur komið til lántöku.
Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að greiða niður skuldir bæjarsjóðs sem gerir það að verkum að skuldastaða bæjarins er töluvert betri en flestra annarra sveitarfélaga. A- hluti (sveitarsjóður) verður skuldlaus við fjármálastofnanir á yfirstandandi ári.
Ársreikningurinn endurspeglar vel fjárhagslegan styrk sveitarfélagsins sem er vel í stakk búið að standa undir framtíðaruppbyggingu. Fjármálastjórnun bæjarins er fagleg, vel ígrunduð og með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Framtíðarhorfur samfélagsins eru bjartar, segir í bókun meirihlutans.
Verður mjög krefjandi að fjármagna komandi verkefni
Í bókun bæjarfulltrúa D lista segir að það sé ljóst að samstillt átak bæjarstjórnar hefur skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu A- hluta fyrir 2023. Niðurstaðan 2022 var neikvæð og voru það mikil vonbrigði eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bentu á.
Niðurstaðan telst ásættanleg á tímum sem þessum þegar kröfur til sveitarfélaga eru meiri en oft áður, sér í lagi þegar litið er til þeirra ábyrgða sem ríkið hefur velt yfir á sveitarfélögin undanfarin misseri. Þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu í A-hluta verður mjög krefjandi að fjármagna komandi verkefni bæjarfélagsins og brýnt að stöðugt sé leitað leiða til að auka skilvirkni í rekstrinum og veita góða þjónustu án þess að auka útgjöldin. Þar munum við leggja okkar af mörkum sem fyrr, segir í bókun minnihlutans.
Samþykkt var með níu samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2023 til síðari umræðu í bæjarstjórn og til endurskoðunar.
https://eyjar.net/564-milljona-hagnadur-baejarins/
https://eyjar.net/skattheimta-og-tekjur-haekkudu-um-ruman-milljard/
https://eyjar.net/tjonid-haerra-en-tryggingabaetur/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst