Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja var lögð fram að lokinni auglýsingu tillaga að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar við listaverk Ólafs Elíassonar við Eldfell og tillaga að deiliskipulagi Eldfells, auk umhverfismatsskýrslu fyrir skipulagsáætlanirnar.
Umsagnir bárust frá 4 umsagnaraðilum vegna tillögu að breyttu aðalskipulagi og 5 umsagnir vegna tillögu að deiliskipulagi.
Vegna upphaflegrar umsagnar Vegagerðarinnar varðandi umferðaröryggi við Eldfellsveg hefur deiliskipulagsuppdrætti og greinargerð verið breytt þannig að einstefna um bílastæði við veginn er áréttuð. Aðrar breytingar hafa ekki verið gerðar á auglýstum skipulagsgögnum.
Undirskriftalisti vegna málsins barst í afgreiðslu Ráðhúss án þess að fram kæmu óskir um það í hvaða farveg hann ætti að fara. Var því tekin ákvörðun um að fjalla um hann við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði. Um er að ræða undirskriftarlista með 602 nöfnum þar sem „fyrirhugaðri röskun á ásýnd Eldfells og tilheyrandi kostnaði við gerð listaverksins“ er mótmælt.
Í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs segir að ráðið samþykki fyrir sitt leyti tillögu að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 vegna uppbyggingar listaverks Ólafs Elíassonar við Eldfell og tillögu að deiliskipulagi Eldfells.
Ánægjulegt er að íbúar og aðrir hafi áhuga á sínu nærsamfélagi eins og undirskriftarlisti sem barst í Ráðhús ber með sér. Á íbúafundi sem haldinn var um listaverkið þann 28. mars sl. var farið vel yfir atriði er varða umhverfisáhrif og afturkræfni vegna verksins og þannig leitast við að koma til móts við óskir íbúa um frekari upplýsingar hvað það varðar. Mat sérfræðings sem fenginn var til að meta umhverfisáhrif er að framkvæmd vegna gönguleiðar sé afturkræf.
Var ofangreint samþykkt með þremur atkvæðum E- og H- lista. Fulltrúar D- lista sátu hjá.
Í bókun frá Jarli Sigurgeirssyni, fulltrúa D- lista segir að hann ítreki fyrri bókanir vegna málsins og tekur undir áhyggjur þeirra 602 sem skrifuðu undir undirskriftalista vegna málsins.
Í bókun frá fulltrúum E- og H-lista í ráðinu segir að það sé ánægjulegt er hve margir sóttu íbúafund um listaverk Ólafs Elíassonar sem haldinn var í lok mars. Íbúar fengu tækifæri til að spyrja listamanninn sjálfan spurninga og koma með ábendingar. Fundurinn var góður vettvangur fyrir íbúa til að deila skoðunum sínum, og þátttaka þeirra var mikilvæg fyrir áframhaldandi þróun verkefnisins. Það er ljóst og kom fram á íbúafundinum að þær áhyggjur sem íbúar hafa helst haft eru óþarfar því listaverkið mun verða afturkræft og hefur því enginn varanleg áhrif á ásýnd Eldfells. Heldur auka aðgengi og stuðla að betri stýringu á gönguleiðum á fjallinu. Meirihluti E- og H- lista eru enn sannfærð um að umrætt listaverk verði bænum til sóma og lýsa yfir ánægju með að skipulagsvinnu sé að ljúka.
Sjá einnig: Listaverka-samningur opinberaður, Ríkið styrkir gerð göngustígs í hlíðum Eldfells
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst