Ísfisktogarinn Bergey VE hefur landað tvisvar í heimahöfn í Eyjum í þessari viku. Jón Valgeirsson skipstjóri er ánægður með gang veiðanna. Haft er eftir honum á vefsíðu Síldarvinnslunnar að þeir hafi farið út á fimmtudag í síðustu viku og héldu beint á Pétursey og Vík.
„Þar var heldur rólegt. Þá var farið austur á Höfða og þar fengum við gott skot. Aflinn var mest þorskur en það var ufsi og ýsa í bland. Haldið var til Eyja og þar lönduðum við á sunnudag. Strax að löndun lokinni var brunað vestur fyrir Reykjanes. Veitt var út af Sandgerði og veiðin var fín. Við kjaftfylltum skipið á stuttum tíma og lönduðum í Eyjum í gær. Segja má að þetta hafi verið glimrandi vika og menn eru bara hressir,” sagði Jón.
Bergey heldur á ný til veiða síðdegis í dag. Systurskip Bergeyjar, Vestmannaey VE, hefur verið í slipp á Akureyri að undanförnu en gert er ráð fyrir að það hefji veiðar í lok næstu viku, segir jafnframt í fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst