„Hugur okkar hjá Drífanda – og örugglega bæjarbúa allra er hjá fólkinu sem var sagt upp,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður stéttarfélagsins Drífanda í kjölfar þess að Vinnslustöðin tilkynnti um lokun bolfiskvinnslu Leo Seafood og uppsögn 50 starfsmanna.
Drífandi mun funda með fólkinu í vikunni, að sögn Arnars. „Við bjóðum fram okkar aðstoð og svörum þeim spurningum sem brenna á fólkinu. Það standa einnig vonir til að hægt verði að bjóða hluta af fólkinu áframhaldandi vinnu í öðrum deildum Vinnslustöðvarinnar, en það skýrist frekar í september.“
Hann bendir á að einnig kunni að skapast tækifæri hjá Laxey í haust, fyrirtækið sé í miklum uppgangi og gæti tekið við einhverju af fólkinu.
„Við hjá Drífanda höfum þegar fundað með forsvarsmönnum VSV og heyri ég ekki annað en að allir þar séu boðnir og búnir til að takmarka tjónið og styðja við fólkið í þeim aðstæðum sem eru komnar upp,“ segir Arnar.
Hann bætir við að þetta séu furðulegar og þungbærar aðstæður. „Það var margbúið að vara við því að þetta gætu orðið afleiðingarnar af veiðigjaldafrumvarpinu – en ekkert var hlustað.“
Arnar gagnrýnir ríkisstjórnina harkalega fyrir skeytingarleysi gagnvart áhrifum veiðigjaldahækkana á samfélög eins og Vestmannaeyjar.
„Þau vilja ekki einu sinni hitta okkur á fundum. Og tilviljunin er sérstök: Búið er að boða stækkun Þjóðleikhússins, sem á að kosta það sama og hækkun veiðigjaldanna á VSV á næstu fimm árum – en það er ekki verið að byggja innviði hér hjá okkur. Ég vil bara óska ríkisstjórninni til hamingju með árangurinn. Óskir hennar eru að rætast. Fiskurinn fer nú úr landi óunninn – til fiskvinnsla í Evrópusambandinu þar sem launin eru um 25% af því sem þau eru hér.“
Hann telur að með þessu sé verið að grafa undan bæði fiskvinnslu og útgerð á Íslandi. „Og þegar það er orðið staðreynd verður ekkert sem stendur í vegi fyrir inngöngu í Evrópusambandið, líkt og þegar viðræðum var slitið síðast.“
Þrátt fyrir svarta stöðu, segir Arnar að samfélagið í Eyjum hafi áður þurft að takast á við erfiðar aðstæður og komið sterkara til baka. „Við þurfum öll að styðja fólkið sem var að fá þessar slæmu fréttir – og trúa því að þetta él stytti upp um síðir. Það býr kraftur í okkur hér í Eyjum,“ segir Arnar að endingu.
Lokunin hefur áhrif á fjölbreyttan hóp starfsmanna. Bæði íslenska og erlenda. Flestir þeirra eru með langan starfsaldur að baki.
Þessu tengt: Vinnslustöðin lokar Leo Seafood
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst