Ísfisktogararnir í eigu Síldarvinnslusamstæðunnar hafa verið á góðu róli í vikunni og allir skilað góðum afla. Samkvæmt upplýsingum á vef Síldarvinnslunnar hafa skipin landað víða, bæði á Austfjörðum og Suðvesturlandi, og eru skipstjórar almennt ánægðir með aflabrögð.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey VE, segir að landað hafi verið tvisvar í Neskaupstað á þessari viku. „Við lönduðum fullfermi á mánudaginn og síðan aftur um 20 tonnum í gær, en þá var komið til hafnar vegna veðurs,“ segir Jón.
Í fyrri túrnum hafi veiðin verið víðtæk, meðal annars á Tangaflaki, Gerpisflaki, Skrúðsgrunni og Hvalbaksgrunni. „Við fengum ýsu og reyndum við ufsa á Papagrunninu, en það gekk lítið. Að lokum fylltum við skipið á Tangaflakinu. Strax eftir löndun var haldið á Gletting og þar fékkst þorskur í brælu,“ segir hann. Bergey hélt aftur til veiða í dag.
Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK, segir veiðina hafa gengið vel og aflinn verið góður. „Við lönduðum fullfermi í Hafnarfirði á þriðjudag eftir stuttan túr. Fiskiríið var mjög gott, mest karfi og ýsa,“ segir Einar. Karfinn fékkst í Víkurálnum og ýsan á Búrbanka, og segir skipstjórinn áhöfnina almennt sátta við túrinn.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE, var ánægður með veiðiferðina en landað var fullfermi í Grindavík í gær. „Það tók okkur þrjá sólarhringa að fá í hann og aflinn var mjög blandaður – mest þorskur og ufsi,“ segir Birgir Þór. Veitt var á Höfðanum og í Breiðamerkurdýpinu. Eftir löndun í Grindavík var haldið til Eyja og þaðan austur til veiða á ný.
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver VE, segir að rúmlega 90 tonnum hafi verið landað á Seyðisfirði í gær. „Þetta var mest þorskur og ýsa. Við fengum aflann að mestu á Gerpisflaki, en tókum eitt hol á Tangaflaki áður en haldið var í land,“ segir Þórhallur.
Hann bætir við að farið hafi verið suður á Papagrunn eftir fréttum af ufsaveiði, en þegar þangað var komið var ufsinn horfinn. „Veður var gott framan af en undir lok túrsins skall á skítaveður. Við höldum aftur til veiða í dag,“ segir hann að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst