Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2026 var tekin til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, flutti framsögu og sagði stöðu bæjarsjóðs áfram trausta þrátt fyrir áskoranir sem sveitarfélög víða um land glíma við.
Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu bæði í A-hluta bæjarsjóðs og samstæðu, og áhersla lögð á áframhaldandi aðhald og góða þjónustu við íbúa.
Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 289,7 milljóna króna jákvæðri afkomu í A-hluta og 441 milljóna króna afkomu í samstæðu Vestmannaeyjabæjar. Tekjur eru varlega áætlaðar en áfram er stefnt að hagkvæmni og ábyrgu fjármálastjórnun. Við fyrri umræðu er jafnframt gert ráð fyrir 1.050 milljóna króna fjárfestingum sem fjármagnaðar eru án lántöku.
Tillaga bæjarráðs gerir ráð fyrir að útsvarsprósenta verði óbreytt, 14,91%. Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækkar á ný, nú úr 0,235% í 0,225%. Þetta er sjöunda lækkunin á átta árum. Á atvinnuhúsnæði lækkar prósentan úr 1,325% í 1,315%. Með þessu er dregið úr áhrifum hækkunar fasteignamats á íbúa og fyrirtæki og lagt upp með að halda opinberum álögum í hófi.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks (D-lista) lögðu fram tillögu um að hvert ráð innan bæjarins fari í hagræðingarvinnu líkt og fræðsluráð hefur gert, en sú vinna hefur þegar skilað sýnilegum árangri.
Fulltrúar E- og H-lista lögðu hins vegar til að tillagan yrði send til bæjarráðs til nánari útfærslu og að vinnuhópar yrðu skipaðir með sama hætti og í fræðslumálum.
Viðbótartillaga um að vísa tillögu bæjarfulltrúa D listans til bæjarráðs var samþykkt samhljóða.
Í bókun bæjarfulltrúa E- og H-lista kom fram að rekstur og staða Vestmannaeyjabæjar verði áfram traust, þrátt fyrir varfærnar tekjuáætlanir.
„Áfram er opinberum álögum stillt í hóf til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Mikil uppbygging er í gangi í Vestmannaeyjum, bæði hjá fyrirtækjum og íbúum. Sveitarfélagið mun áfram leggja áherslu á ábyrgan og hagkvæman rekstur, samhliða því að tryggja góða og faglega þjónustu við íbúa,“ segir í bókun meirihlutans. Bæjarfulltrúar undirstrikuðu að Vestmannaeyjar verði áfram eftirsóknarverður búsetukostur fyrir fjölskyldufólk og samfélag þar sem gott er að búa.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu áherslu á að hlutverk sveitarfélagsins væri að tryggja íbúum lögbundna þjónustu og skapa aðstæður fyrir fyrirtæki til ábyrgrar verðmætasköpunar. Í bókun minnihlutans segir að mikilvægt sé að veita þjónustu með eins hagkvæmum hætti og unnt er og fara vel með sameiginlega sjóði.
„Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélagið að hagræða eins mikið og kostur er í rekstri án þess að skerða þjónustu eða gæði hennar, og forðast kostnaðarsamar lántökur í lengstu lög,“ segir í bókun D-lista.
Í umræðunni kom fram að kaup og möguleg niðurlagning á almannavarnalögninni NSL4 geti haft veruleg áhrif á fjárfestingargetu sveitarfélagsins á næstu árum. Þar sem staðan á fjármögnun lagnarinnar er óljós skapar hún óvissu við gerð fjárhagsáætlunar.
Bæjarstjórn samþykkti sameiginlega bókun þar sem hún skorar á ríkisstjórn og þingmenn að tryggja fjármögnun verksins, enda sé sveitarfélagið ekki í stakk búið til að bera þann kostnað eitt og sér.
Bæjarfulltrúar E- og H-lista lögðu áherslu á að rekstur og staða Vestmannaeyjabæjar verði áfram traust og að opinberum álögum verði haldið í skefjum. Áhersla verði á ábyrgan rekstur og góða þjónustu við íbúa, samhliða því sem mikil uppbygging sé nú í gangi í bænum bæði af hálfu íbúa og fyrirtækja. Vestmannaeyjar verði áfram eftirsóknarverður staður til búsetu og starfa.
Samþykkt var með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa að vísa fjárhagsáætlun 2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn. Tillögur um lægri fasteignaskatt og óbreytt útsvar hlutu einnig samhljóða samþykki. Áætlunin verður tekin til síðari umræðu í bæjarstjórn síðar á árinu.
| Liður | Upphæð (kr.) |
|---|---|
| Tekjur A-hluta alls | 6.950.249.000 |
| Gjöld fyrir fjármagnsliði | 6.729.918.000 |
| Rekstrarniðurstaða (jákvæð) | 289.672.000 |
| Veltufé frá rekstri | 933.849.000 |
| Afborganir langtímalána | 0 |
| Handbært fé í árslok | 1.382.252.000 |
| Samstæðutekjur alls | 10.325.811.000 |
| Rekstrarniðurstaða samstæðu (jákvæð) | 441.070.000 |





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst