Ísfisktogararnir í eigu Síldarvinnslusamstæðunnar hafa verið á góðu róli í vikunni og allir skilað góðum afla. Samkvæmt upplýsingum á vef Síldarvinnslunnar hafa skipin landað víða, bæði á Austfjörðum og Suðvesturlandi, og eru skipstjórar almennt ánægðir með aflabrögð.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey VE, segir að landað hafi verið tvisvar í Neskaupstað á þessari viku. „Við lönduðum fullfermi á mánudaginn og síðan aftur um 20 tonnum í gær, en þá var komið til hafnar vegna veðurs,“ segir Jón.
Í fyrri túrnum hafi veiðin verið víðtæk, meðal annars á Tangaflaki, Gerpisflaki, Skrúðsgrunni og Hvalbaksgrunni. „Við fengum ýsu og reyndum við ufsa á Papagrunninu, en það gekk lítið. Að lokum fylltum við skipið á Tangaflakinu. Strax eftir löndun var haldið á Gletting og þar fékkst þorskur í brælu,“ segir hann. Bergey hélt aftur til veiða í dag.
Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK, segir veiðina hafa gengið vel og aflinn verið góður. „Við lönduðum fullfermi í Hafnarfirði á þriðjudag eftir stuttan túr. Fiskiríið var mjög gott, mest karfi og ýsa,“ segir Einar. Karfinn fékkst í Víkurálnum og ýsan á Búrbanka, og segir skipstjórinn áhöfnina almennt sátta við túrinn.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE, var ánægður með veiðiferðina en landað var fullfermi í Grindavík í gær. „Það tók okkur þrjá sólarhringa að fá í hann og aflinn var mjög blandaður – mest þorskur og ufsi,“ segir Birgir Þór. Veitt var á Höfðanum og í Breiðamerkurdýpinu. Eftir löndun í Grindavík var haldið til Eyja og þaðan austur til veiða á ný.
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver VE, segir að rúmlega 90 tonnum hafi verið landað á Seyðisfirði í gær. „Þetta var mest þorskur og ýsa. Við fengum aflann að mestu á Gerpisflaki, en tókum eitt hol á Tangaflaki áður en haldið var í land,“ segir Þórhallur.
Hann bætir við að farið hafi verið suður á Papagrunn eftir fréttum af ufsaveiði, en þegar þangað var komið var ufsinn horfinn. „Veður var gott framan af en undir lok túrsins skall á skítaveður. Við höldum aftur til veiða í dag,“ segir hann að lokum.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.