Áramótin nálgast nú óðfluga og notkun flugelda eykst samhliða. Lögreglan í Vestmannaeyjum sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem minnt er á þær reglur sem gilda um notkun flugelda. En almenn notkun flugelda er heimil á tímabilinu frá 28. desember til 6. janúar. Á því tímabili er þó óheimilt að skjóta flugeldum á milli kl. 22:00 og 10:00, að undanskilinni nýársnótt. Þá skulu börn yngri en 18 ára ávallt vera undir eftirliti fullorðinna við meðferð flugelda.
Einnig er óheimilt að breyta flugeldum á nokkurn hátt þannig að eiginleikar þeirra verði aðrir en framleiðandi gerir ráð fyrir. Þá er sérstaklega varað við svokölluðum vítistertum. Lögreglu hefur þegar borist tilkynnigar þess efnis að börn séu að fikta við vítistertur, sem geta verið mjög hættulegar.
Að lokum minnir lögregla á mikilvægi þess að nota öryggisgleraugu og ganga hægt um gleðinnar dyr um áramótin.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst