Bergey VE kom til heimahafnar í Eyjum í morgun með fullfermi. Aflinn var góð blanda af þorski, ýsu og ufsa. Systurskipið Vestmannaey er hins vegar í slipp á Akureyri en gert er ráð fyrir að það haldi til veiða um næstu helgi, að því er segir í frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Þar er rætt við Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, sem var ánægður með túrinn. „Við fórum út á fimmtudagskvöld og byrjuðum að veiða á Ingólfshöfðanum. Við færðum okkur síðan á Víkina. Veiðin gekk vel og aflinn var vel blandaður. Gert er ráð fyrir að haldið verði til veiða á ný strax að löndun lokinni og þá skal reynt við karfa,” sagði Jón.
Vestmannaey er í mánaðar slipp á Akureyri og að sögn Arnars Richardssonar, rekstrarstjóra Bergs – Hugins, er um allsherjarslipp að ræða. „Það eru vélaupptektir, öxuldrættir og heilmálun svo eitthvað sé nefnt. Við gerum ráð fyrir að skipið fari niður í dag og haldi til veiða um næstu helgi,” sagði Arnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst