Dæluskipið Álfsnes, sem ætlað er að hefja dýpkun í Landeyjahöfn, var tekið aftur í slipp í dag eftir að bilun kom upp í nýupptekinni hliðarskrúfu. Það staðfestir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Eyjafréttir.
„Nýupptekin hliðarskrúfa missti alla olíu og því þurfti að taka skipið upp aftur, og var það gert í dag,“ segir Pétur. Ekki liggur fyrir hvað olli lekanum, en samkvæmt Pétri eru allir íhlutir í skrúfunni nýir. „Ekki er ljóst af hverju lekinn varð, en það eru allir íhlutir nýir í skrúfunni,“ segir hann. Að sögn Péturs er hugsanlegt að Álfsnesið verði klárt í nótt eða um miðjan dag á morgun.
Vegna aðstæðna var breytt siglingaáætlun í kvöld, þriðjudag. Herjólfur siglir frá Landeyjahöfn og verður brottför kl. 20:00. Beðið verður eftir farþegum Strætó áður en siglt verður. Óbreytt siglingaáætlun gildir fyrir fyrramálið.
Á miðvikudag 5. nóvember siglir Herjólfur til Þorlákshafnar í fyrri ferð dagsins:
Brottför frá Vestmannaeyjum kl. 07:00
Brottför frá Þorlákshöfn kl. 10:45
Á þessum árstíma er ávallt hætta á færslu milli hafna og því ekki æskilegt að skilja eftir farartæki í annarri hvorri höfninni. Þeir farþegar sem hyggjast nýta gistirými ferjunnar eru minntir á að koma með eigin búnað. Tilkynning vegna siglinga seinnipartinn 5. nóvember verður gefin út fyrir klukkan 15:00 þann dag, segir í tilkynningu frá Herjólfi ohf.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst