„Bölvaður brælutúr“
nyjar_eyjar
Systurskipin Vestmannaey og Bergey í Vestmannaeyjahöfn. Eyjafréttir/Eyjar.net: Tryggvi Már

Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í heimahöfn í dag. Á vefsíðu Síldarvinnslunnar segir að um sé að ræða síðustu túra þeirra fyrir jólahátíðina.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, sagði að túrinn hafi verið heldur erfiður. „Það var skítaveður nánast allan túrinn og við vorum á sífelldum flótta undan veðrinu. Við byrjuðum austur á Breiðdalsgrunni og síðan var farið á Gula teppið og eftir það verið Utanfótar. Þaðan lá leiðin á Papagrunn þar sem fékkst ufsi og síðan var klárað á Ingólfshöfða og í Skeiðarárdýpinu. Veiðin var afar róleg eftir að komið var vestur fyrir Hornafjörð og veðrið var ekki til að bæta úr skák. Það er víst vetur og allra veðra von. Það blæs stundum mjög hressilega á okkur en menn verða bara að gera eins gott úr þessu og mögulegt er. Nú erum við komnir í gott jólafrí en hugsanlegt er að haldið verði til veiða á milli hátíða,“ sagði Ragnar.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, hafði svipaða sögu að segja og Ragnar. „Þetta var bölvaður brælutúr. Við byrjuðum á Skrúðsgrunni í ágætis kroppi og fórum síðan suður í Hvalbakshall en þar var lítið að hafa. Þá lá leiðin á Papagrunn þar sem fengust tvö ágæt ufsahol. Þegar komið var suður fyrir landið var stoppað á Ingólfshöfða en þar var ekkert að hafa og eftir það enduðum við í ýsureytingi á Síðugrunni. Það voru bölvaðar sunnanbrælur í túrnum og í nótt var austanstormur. Það er ósköp gott að vera kominn í land og framundan er jólafrí,“ segir Birgir Þór.

Nýjustu fréttir

Eyjakona og drottning íslenskrar knattspyrnu
Bæjarstjórnarfundur í beinni
Andri Erlingsson til Kristianstad
Verulegur munur á tilboðum í flóðlýsingu Hásteinsvallar
Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.