Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs
Kirkjugerdi 24 Tms IMG 6244
Bæjarstjóri og deildarstjóri fræðslu- og uppeldismála funduðu með foreldrum eftir að bréf barst frá foreldrum leikskólabarna. Eyjafréttir/Eyjar.net: Tryggvi Már

Dagvistunarmál voru til umræðu á fundi fræðsluráðs Vestmannaeyja eftir að opið bréf barst frá foreldrum leikskólabarna. Í kjölfarið funduðu bæjarstjóri og deildarstjóri fræðslu- og uppeldismála með foreldrum þar sem farið var yfir áhyggjur þeirra af tekjuviðmiðum heimgreiðslna og stöðu biðlista á leikskólum bæjarins.  Í bréfinu komu fram áhyggjur af stöðu dagvistunarmála og framtíðarskipulagi leikskólainntöku í Vestmannaeyjum.

Sjá einnig: Opið erindi til bæjastjórnar vegna stöðu leikskólamála

Fram kemur í fundargerð fræðsluráðs að samkvæmt samtölum við bréfritara eru foreldrar almennt ánægðir með fyrirkomulag heimgreiðslna, en telja tekjuviðmið of lág. Þá lýstu foreldrar áhyggjum af því að næsta úthlutun leikskólaplássa verði ekki fyrr en í ágúst á þessu ári. Í janúar tókst að taka inn níu börn á leikskóla. Í kjölfarið eru sex börn enn á biðlista sem eru orðin 12 mánaða gömul, en sá fjöldi verður orðinn sjö í lok janúar.

Tillaga meirihlutans samþykkt

Til að bregðast við stöðunni og koma til móts við foreldra lagði meirihluti fræðsluráðs fram eftirfarandi tillögu:

  1. Breyting verði gerð á tekjuviðmiðum heimgreiðslna og málið tekið fyrir sem næsta mál á fundi.

  2. Skoðað verði að bjóða á ný upp á þjónustu dagforeldra. Gert verði ráð fyrir að greiðslur foreldra verði sambærilegar við leikskólavistun og niðurgreiðsla í samræmi við það. Framkvæmdastjóra sviðs verði falið að reikna kostnað og leggja málið fyrir bæjarráð til afgreiðslu. Í framhaldinu verði auglýst eftir dagforeldri.

  3. Hafið verði samtal við leikskólastjórnendur um að inntaka nemenda á leikskólann Víkina fari fram í vor.

Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa E- og H-lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa D-lista.

Bókun minnihlutans

Fulltrúar D-lista bókuðu að þeir gætu ekki samþykkt tillöguna í heild sinni. Þar kemur fram að þeir vilji afnema tekjutengingu heimgreiðslna að fullu, en séu jákvæðir gagnvart síðari hluta tillögunnar sem snýr að dagforeldrum og öðrum aðgerðum til að fjölga dagvistunarúrræðum.

Jafnframt lögðu fulltrúar D-lista fram tillögu um að fallið yrði alfarið frá tekjutengingu heimgreiðslna. Sú tillaga var felld með þremur atkvæðum fulltrúa E- og H-lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa D-lista.

Gagnrýni á vinnubrögð meirihlutans

Í annari bókun þökkuðu fulltrúar D-lista bréfriturum fyrir greinargott og einlægt bréf og tóku undir málflutning þeirra. Þar kemur fram sú afstaða að heimgreiðslur ættu að standa öllum foreldrum til boða, óháð efnahag, bæði til að draga úr eftirspurn eftir leikskólaplássum og til að auka samverustundir barna með foreldrum eða öðrum fjölskyldumeðlimum þegar þess er kostur.

Að lokum gagnrýndu fulltrúar D-lista vinnubrögð meirihlutans í málinu og bentu á að tillagan hafi ekki fylgt fundargögnum heldur verið kynnt fyrst á fundinum sjálfum, sem hafi gefið fundarmönnum skamman tíma til umhugsunar.

Nýjustu fréttir

Draumar æskuáranna rættust
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs
Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.