„Gleðisprengjur urðu til í verkefni sem við Birgir Nilsen erum að vinna fyrir Visku í samvinnu með starfsfólki Heimaeyjar vinnu og hæfingarstöðvar. Þetta byrjaði sem stutt verkefni, þar sem við tókum á móti þátttakendum í nokkur skipti í Tónlistarskólanum til að kynna þeim hljóðfæri og tónlist. Verkefnið þróaðist í meiri söng og upp úr því spratt hljómsveitin Gleðisprengjurnar.” Þetta segir Jarl Sigurgeirsson, skólastjóri Tónlistarskólans í samtali við Eyjafréttir, en í gær buðu Gleðisprengjurnar upp á tónleika á Brothers Brewery.
„Verkefnið þróaðist áfram og höfum æft saman vikulega í klukkustund undanfarnar 10 vikur í vinnu og hæfingarstöðinni Heimaey og var dagurinn í dag uppskeruhátíð þessa verkefnis. Æfingarnar eru klukkustund af hreinni gleði þar sem þátttakendur syngja af innlifun og spila með á létt slagverkshljóðfæri. Það var sérstaklega vel til fundið að slútta önninni á Brothers Brewery og við vorum himinlifandi yfir mætingunni og þeirri frábæru stemningu sem skapaðist í gær. Fullt var út úr dyrum og einlæg gleði réð för.
Nú tekur við sumarfrí hjá Gleðisprengjunum, nema frægðin knýji dyra og kalli okkur til leiks. Stemningin í dag gaf alveg undir fótinn með það. En að öllu óbreyttu munu Gleðisprengjurnar taka upp þráðinn í haust, við Birgir vonumst allavega eftir áframhaldi á þessu verkefni, enda erum við sammála um að sú klukkustund sem í þetta hefur verið varið vikulega hafi alltaf verið besta klukkustund vikunnar hjá okkur.” segir Jarl að endingu.
Ljósmyndari Eyjafrétta naut tónleikana í gær og smellti í leiðinni meðfylgjandi myndum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst