Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, heimsótti Vestmannaeyjar á fimmtudaginn síðastliðinn. Markmið ferðarinnar var að ræða fyrirhugaða uppbyggingu hjúkrunarheimilis og kynna sér starfsemi helstu stofnana í málaflokki ráðherrans.
Bæjarráð tók á móti Ingu í ráðhúsinu, þar sem rætt var um áform um nýtt hjúkrunarheimili við sjúkrahúsið. Lögð var áhersla á að framtíðarlausnin yrði hluti af heildstæðri þjónustu við eldri borgara, sem er bæði faglega og fjárhagslega hagkvæmri leið.
Að fundi loknum heimsótti ráðherrann Hamarsskóla ásamt bæjarstjóra og kynnti sér verkefnið Kveikjum neistann. Þó fræðslumál heyri ekki undir ráðuneyti hennar hefur Inga sýnt verkefninu mikinn áhuga frá upphafi.
Einnig var komið við á Hraunbúðum, í Heimaey og í Kjarnanum, þar sem ráðherrann ræddi við íbúa og starfsfólk og kynnti sér starfsemina. Á Hraunbúðum átti einn íbúanna 90 ára afmæli og fékk hann afmælissöng frá ráðherranum.
Heimsóknin vakti víða lukku, enda Inga þekkt fyrir glaðlega og hlýja framkomu. Í dagdvölinni Bjarginu spjallaði hún við gesti og tók þátt í gleðinni, og í Heimaey var hún leyst út með kertagjöfum að skilnaði.
Heimsókninni lauk á skrifstofum fjölskyldu- og fræðslusviðs, þar sem Silja Rós Guðjónsdóttir, deildarstjóri félagsþjónustu, kynnti starfsemi félagsþjónustunnar og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.
Samkvæmt frétt á vef Vestmannaeyjabæjar, sem þessi umfjöllun byggir á, var heimsókn ráðherrans bæði ánægjuleg og gagnleg fyrir alla aðila.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst