Vestmannaeyjabær hefur framlengt þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks til 31. desember 2025. Um er að ræða viðauka við eldri samning sem tók gildi í upphafi árs 2024.
Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Péturssyni, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, tryggir samningurinn að bæjarfélagið fái greiddan allan kostnað vegna þjónustu sem tengist móttöku flóttafólks. „Samkvæmt samningnum eru ítarlegar skýringar á fyrirkomulagi greiðslna vegna þjónustukaupa og eiga þær að standa undir kostnaði,“ segir Jón.
Í dag eru um 13 einstaklingar í Eyjum sem enn falla undir þennan samning. Þjónustan hefur þó dregist nokkuð saman á síðustu misserum. „Oft er erfitt að greina á milli hvað telst kostnaður vegna móttöku flóttafólks eða almennur stuðningur við fólk af erlendum uppruna,“ segir Jón ennfremur. Þegar einstaklingar hafa skráð lögheimili sitt í Vestmannaeyjum teljast þeir íbúar með sömu réttindi og aðrir Vestmannaeyingar, og þá fellur þjónustan ekki lengur undir samninginn við ríkið.
Ríkið endurgreiðir sveitarfélaginu útlagðan kostnað vegna þeirra sem flokkast sem flóttafólk, og lendir því engin nettókostnaður á Vestmannaeyjabæ vegna þessa verkefnis.
Að sögn Jóns er þó óvissa um framhald þessara samninga eftir árið 2025. „Nokkur óvissa ríkir með framhald samninga ríkisins við sveitarfélög vegna samræmdrar móttöku flóttafólks,“ segir hann. Viðaukinn var samþykktur samhljóða í bæjarráði Vestmannaeyja, sem fól bæjarstjóra að undirrita hann.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst