Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja lítur yfir árið sem nú er að renna sitt skeið í pistli sem birtur er á vef Vestmannaeyjabæjar. Pistilinn má einnig lesa hér að neðan.
Á því ári sem nú er að líða höfum við að flestu leyti ‘’gengið til góðs götuna fram eftir veg’’ hér í Eyjum.
Það hefur staðið yfir gríðarleg uppbygging og framkvæmdir á vegum einstaklinga og fyrirtækja. Þar ber auðvitað hæst glæsilegt landnám nýrrar atvinnugreinar hér í Eyjum – landeldi á laxi. Þar er á ferðinni stærsta einstaka fjárfesting í sögu Vestmannaeyja. Allt hefur gengið samkvæmt áætlun og nýlega fór fram fyrsta slátrunin hjá Laxey sem skilaði 98% afurðanna í hæsta gæðaflokk.
Sömuleiðis standa fyrir dyrum miklar framkvæmdir við baðlón og hótel austan við Skansinn sem eiga örugglega eftir að skjóta enn frekari stoðum undir blómlega ferðaþjónustu í bænum. Og ekki má heldur gleyma því að ‘’hefðbundnu’’ fyrirtækin í sjávarútvegi hafa sömuleiðis staðið í margháttuðum endurbótum og framkvæmdum.
Einnig getum við glaðst yfir sterkri fjárhags- og rekstrarstöðu Vestmannaeyjabæjar. Bæjarsjóður er skuldlaus við lánastofnanir og rekinn með afgangi ár eftir ár. Engin lán eru tekin til framkvæmda heldur eru þær fjármagnaðar ‘’upp úr vasanum’’.
Fólksfjölgun er stöðug en hófleg – fjölgað um tæplega 600 frá 2018. Ég segi hófleg því sígandi lukka er best í þessum efnum.
Og gleymum ekki því sem skiptir kannski langmestu máli þegar litið er til framtíðar. Grunnskóli Vestmannaeyja hefur tekið algjöra forystu á landsvísu þegar kemur að menntun barnanna okkar með verkefninu Kveikjum neistann. Verkefnið hefur vakið gríðarlega athygli og nú þegar hefur einn stór skóli, Lindaskóli í Kópavogi ákveðið að fylgja fordæmi GRV.
Að síðustu skulum við svo fagna því sem gerðist núna rétt fyrir jólin: við fengum endanlega staðfest að allar Vestmannaeyjar, ásamt öllum skerjum og dröngum, eru eignarlönd í eigu Eyjamanna sjálfra. Tilraun ríkisins til að slá eign sinni á Vestmannaeyjar var hrundið. Það hefur verið skálað af minna tilefni á gamlárskvöld.
Þannig getum við á þessum tímamótum glaðst yfir flestu af því sem er ekki á okkar valdi, en sannarlega getum við haldið áfram að pirra á okkur á því sem er ekki á okkar valdi: fyrst og fremst samgöngunum. Við öll sem erum í bæjarstjórn gerum allt sem í okkar valdi stendur til að þrýsta á stjórnvöld, þingmenn og ráðherra, til að gera betur. Það væri ósanngjarnt að segja að ekkert hefði gerst – en ekki nógu mikið og ekki nógu hratt.
Á nýju ári verður svo kosin ný bæjarstjórn og verður spennandi að sjá hverjir munu gefa kost á sér, nýir og gamlir!
Ég þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina á líðandi ári – og fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja óska ég ykkur gæfu og gengis á því nýja ári sem brátt gengur í garð.
Páll Magnússon
forseti bæjarstjórnar




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst