Fulltrúar Kvenfélagasambands Íslands komu til Vestmannaeyja í dag og afhentu Heilsugæslu Suðurlands í Eyjum Milou-heilsuverndarhugbúnað, sem er hluti af landsverkefninu „Gjöf til allra kvenna“. Með í för voru fulltrúar kvenfélagsins Líkn, sem hefur lengi verið öflugur bakhjarl heilbrigðismála í Eyjum.
Milou-hugbúnaðurinn er afrakstur umfangsmikillar söfnunar sem efnt var til í tilefni af 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands árið 2020. Alls söfnuðust um 30 milljónir króna sem varið var til kaupa á tækjabúnaði og hugbúnaði sem eflir heilsuvernd kvenna um land allt. Hugbúnaðurinn hefur verið eða verður settur upp á sjö fæðingarstöðum á Íslandi.
Innleiðing Milou hjá HSU í Vestmannaeyjum markar mikilvægt framfaraskref í þjónustu við konur á meðgöngu og í fæðingu. Hugbúnaðurinn gerir kleift að vista sjúkraskrárgögn sem tengjast fósturhjartsláttarritum og sónarniðurstöðum miðlægt á öruggan hátt. Þetta eykur yfirsýn og gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að fá faglegt álit frá sérhæfðara þjónustustigi, svo sem frá Kvennadeild Landspítalans, þegar þörf krefur.
Einn stærsti kostur Milou er að hægt er að skoða fósturhjartsláttarrit í rauntíma og fá strax ráðgjöf frá sérfræðingum annars staðar á landinu. Með þessu má í mörgum tilfellum koma í veg fyrir að senda þurfi konur langar vegalengdir í frekari rannsóknir. Ekki þarf lengur að prenta út ritin og fleiri geta fylgst með þeim samtímis, bæði á fæðingarstofu og við reglubundið eftirlit á meðgöngu.
Miðlægt aðgengi að sjúkraskrárgögnum er mikilvægt öryggisatriði fyrir konur á meðgöngu og í fæðingu. Gögnin fylgja rafrænni meðgönguskrá konunnar, eru vistuð á löglegan og öruggan hátt og hægt er að meta þau hvenær sem er, milli skoðana og í rauntíma.
Með tilkomu Milou styrkist þjónusta HSU í Vestmannaeyjum og eykur öryggi og gæði í mæðravernd og fæðingarþjónustu fyrir konur í Eyjum og á landsvísu. Ljósmyndari Eyjafrétta smellti nokkrum myndum frá afhendingunni.























Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst