Í framhaldi af greinaskrifum hér á Eyjafréttum sem m.a. vörðuðu stöðu fjármála Vestmannaeyjabæjar höfum við hjá Eyjafréttum ákveðið að taka saman peningalegar eignir bæjarins og rifja upp söluna á um 7% hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja árið 2006.
Samkvæmt ársreikningi árið 2006 átti bærinn einungis 120 milljónir kr í handbært fé og skuldaði 1.500 milljónir ásamt því að leigja töluvert af fasteignum til sín á þessum tíma, s.s. barnaskólann. Að teknu tilliti til þessarar leiguskuldar mætti leggja rök fyrir því að bærinn hafi skuldað um 8 milljarða á núvirði.
Geysir Green Energy keypti 28,4% hlut sveitarfélaganna í hitaveitunni árið 2007 og greiddi 15 milljarða fyrir bréfin. Vestmannaeyjabær fékk um 3,6 milljarða fyrir sinn 7% eignarhlut sem nemur tæpum 9 milljörðum að núvirði. Fjárhagsstaða bæjarins hafði því snúist rækilega við á einni nóttu og bærinn hafði nú dágóðan sjóð til framkvæmda.
Tækifærið var nýtt til að kaupa aftur fasteignir sem seldar voru á sínum tíma til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ásamt því að borga niður stærstu bankalán. Ekki fékkst heimild til að borga niður eitt af bankalánunum en það lán var með lokagjalddaga í fyrra og var þá bærinn loksins skuldlaus.
Elliði Vignisson þáverandi bæjarstjóri sagði um söluna á þessum tíma: „Vestmannaeyjabær er afar sáttur við söluna. Við höfum alla tíð lagt áherslu á góða þjónustu við bæjarbúa og teljum það hlutverk okkar að haga fjárfestingum sveitarfélagsins í samræmi við það. Um leið og þessi sala gefur Vestmannaeyjabæ aukin tækifæri til að ráðast í þarfar framkvæmdir sem auka enn þjónustu við bæjarbúa verður áhersla áfram lögð á hagræðingu og aðhald í rekstri.”
Við sölu á hlutafé bæjarins á 7% hlut í hitaveitunni varð til myndarlegur sjóður sem hefur nýst til margvíslegrar framkvæmda og hefur vaxið og dregist saman. Þannig stækkaði sjóðurinn úr 1,5-2 milljörðum á núvirði í tæpa 4 milljarða á 6-7 árum en bærinn skilaði góðri afkomu á tímabilinu. Í dag reiknum við hjá Eyjafréttum að sjóðurinn sé rúmlega einn milljarður.
Bærinn hefur lagt í margvíslegar framkvæmdir frá sölu hitaveitunnar, s.s. knattspyrnuhúsið, bætt útisvæði í sundlauginni, Eldheimar, búningsaðstaða við Hásteinsvöll, Ægisgötu, nýja slökkviliðsstöð, endurbætur á Ráðhúsinu og nú er í burðarliðnum listaverk á Eldfelli.
Sjóðurinn, og sú ávöxtun sem fjármagnið hefur gefið, hefur því nýst vel á síðustu 20 árum við fjölbreytta uppbyggingu en Eyjafréttir tóku í fyrra saman kostnað við nýjustu framkvæmdir.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst