Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyjabæjar tekur heilshugar undir áskoranir Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) og Hafnasambands Íslands um aukið fjármagn til hafnaruppbyggingar og kallar eftir því að ríkið tryggi Vestmannaeyjahöfn nauðsynlegt fjármagn til að mæta framtíðaráskorunum.
Þetta kom fram á fundi ráðsins þar sem hafnarstjóri fór yfir samþykkt frá ársþingi SASS, sem haldið var á Kirkjubæjarklaustri í október. Þar var skorað á stjórnvöld að tvöfalda framlag í hafnarbótasjóð svo unnt sé að sinna uppbyggingu hafna og tengdra innviða.
Á fundinum var einnig vísað til ályktunar Hafnasambands Íslands, þar sem bent er á að fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga endurspegli engan veginn raunverulega fjárþörf hafna. Framlag í hafnarbótasjóð hefur lækkað hratt undanfarin ár:
244 milljóna króna lækkun árin 2023–2026 (á verðlagi hvers árs).
Fyrirliggjandi áform gera ráð fyrir 248 milljóna króna lækkun til viðbótar á tímabilinu 2026–2030.
Í skýrslu Íslenska sjávarklasans kemur jafnframt fram að hafnarsjóðir, sem njóta framlags úr hafnarbótasjóði, hafi fjárfest fyrir um 15 milljarða króna á árunum 2020–2024 í viðhaldi og nýframkvæmdum. Næstu fimm ár er áætlað að fjárfestingaþörfin verði rúmlega 20 milljarðar, og fram til 2040 er þörfin metin á um 43 milljarða króna.
Í bókun ráðsins segir að ekki verði lengur við það unað að framlög dragist saman á sama tíma og fjárfestingaþörf aukist.
„Ráðið ítrekar að hagsmunir Vestmannaeyjahafnar séu tryggðir með nauðsynlegu fjármagni frá ríkinu svo hægt sé að sinna þeirri innviðauppbyggingu sem framundan er.“




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst