Andvari er ný stofnun sem hefur það markmið að stuðla að farsæld íslensku þjóðarinnar. Starfið er rekið án hagnaðarsjónarmiða og er fjármagnað af sex fjölskyldum sem standa að verkefninu. „Ísland stendur frammi fyrir stórum áskorunum þegar kemur að börnum okkar, menntun og heilbrigði,“ segir Tryggvi Hjaltason, framkvæmdastjóri Andvara. „Ef ekkert breytist gæti innan fimm ára meirihluti heillar kynslóðar barna verið ólæs, þ.e. ekki náð lágmarkshæfni í lesskilningi og meirihluti drengja orðin óvirkur í skólakerfinu.“
Tryggvi bendir einnig á að hlutfall barna sem ekki fá næga grunnþjálfun í íslensku og félagsfærni aukist á sama tíma og biðlistar í mennta- og heilbrigðiskerfinu séu óeðlilega langir miðað við íbúafjölda landsins. „Kennarar, foreldrar og sveitarfélög þurfa fleiri tól og meiri stuðning. Þetta er samfélagslegt verkefni þar sem allir ættu að finna sér hlutverk. Við viljum leggja okkar af mörkum,“ segir Tryggvi.

Andvari ætlar að styðja uppbyggingu framúrskarandi menntakerfis, heilbrigðiskerfis og velferðar með nýrri, skalanlegri tækni ásamt því að efla gildi á borð við kærleika, auðmýkt, jákvæðni, samkennd, þakklæti og von. „Við byrjum á menntakerfinu og höfum þegar tekið þátt í sex verkefnum á því sviði,“ segir Tryggvi. Tvö þeirra eru hafin og snúa að því að efla aðgang kennara að fjölbreyttum og góðum námsgögnum. Í samstarfi við Menntamálastofnun og Apró var settur upp vefurinn kennaralon.is, þar sem kennarar og áhugafólk um menntun geta bæði deilt og nýtt sér kennsluefni í anda „open source“ hugmyndafræðinnar.“
Tryggvi segir að nú þegar séu þar hundruð kennslumyndbanda og sífellt vaxandi efnisbanki sem kennarar geta sótt og notað í án endurgjalds. „Mikilvægast er þó að þeir sem búa sjálfir til efni geta nú auðveldlega deilt því með öðrum. Kennararnir eru okkar framlínufólk í þessari orrustu,“ segir Tryggvi.
Annað stórt verkefni snýr að því að efla áhuga barna á stærðfræði. Andvari styður við þjóðarátak sem byggir á stærðfræðilausninni „Evolytes“ sem gerir námsferlið að leik fyrir nemendur á fyrstu og miðstigum grunnskóla. Nær allir grunnskólar landsins eru þátttakendur og hafa börn nú þegar leyst yfir milljón stærðfræðidæmi á skólaárinu. Börn í Vestmannaeyjum eru meðal þeirra sem hafa staðið sig hvað best. „Það verður sífellt erfiðara að vekja áhuga barna á grunnfögum. Allt sem hjálpar til skiptir máli og við höfum mikla trú á „Evolytes“. Tvö af mínum börnum fengu sjálf áhuga á stærðfræði í gegnum leikinn,“ segir Tryggvi.
Andvari leggur áherslu á langtímastarf og að styðja þá sem sýni metnað og getu til umbóta, hvort sem það eru sveitarfélög, ríkið, stofnanir, fyrirtæki, skólar eða kennarar. „Það á eftir að koma betur í ljós hversu mikil áhrif stuðningur okkar mun hafa en möntruna sem við vinnum eftir mætti orða svona,“ segir Tryggvi og vitnar í Tómas Guðmundsson:
Meðan til er böl er bætt þú gast
Og barist var meðan hjá þú sast
Er ólán heimsins einnig þér að kenna.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst