Rafal Matuszczyk eða ,,Raff” eins og hann er kallaður flutti til Íslands árið 2016 frá Póllandi. Hann ákvað á sínum tíma að fylgja konu sinni Celenu Matuszczyk yfir til Íslands og hefja nýjan kafla hér á landi. Raff fékk vinnu hjá Steina og Olla og var þar með fyrsti útlendingurinn til að starfa hjá fyrirtækinu. Rafal og Celena hafa búið hér í Eyjum síðan þau fluttu til Íslands og eiga saman tvö börn. Raff er mikill áhugamaður um ljósmyndun og hafa myndir hans af Vestmannaeyjum vakið mikla athygli.
Rafal segir ljósmyndunina alltaf hafa heillað sig, en hann byrjaði að taka myndir af eyjunni á símann sinn fyrir um það bil þrem árum og stuttu síðar hafi fjölskyldan komið honum á óvart með nýrri myndavél og svo annari ári seinna og smám saman bætti hann við aukahlutum eins og linsum, þrífæti og fleira tengt ljósmynduninni.
,,Fólk hefur örugglega séð mig á rölta um eyjuna með myndavél í hönd að eltast við birtuna” segir hann og bætir við að erfitt sé að hunsa fegurðina sem eyjan hefur upp á að bjóða, en honum þykir umhverfið hér einstaklega fallegt og finnur sig knúinn til að mynda það. Rafal er alveg sjálflærður, og segir það ekki hafa heillað sig að læra ljósmyndun í skóla heldur hafi hann kosið að læra hlutina sjálfur og prófa sig áfram. ,,Ég elska bara tilfinninguna að ganga um með myndavél og sjá heiminn í öðru ljósi og að ná einhverju einstöku augnabliki á mynd. Það veitir mér mikið frelsi og vellíðan.”
Aðspurður hvar Rafal fái innblástur fyrir myndirnar sínar segir hann að það sé aðallega frá fjölskyldunni, þó svo hann skoði líka alveg hvað aðrir ljósmyndarar séu að gera. ,,Fjölskyldan er ástæðan fyrir að ég fæ þetta frelsi, þau hjálpuðu mér að láta þennan draum rætast.” segir hann að lokum.
Áhugasamir geta fylgt Rafal á Instagram undir icelandraff.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst