Samráðsferlið hafið
Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ ásamt Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mennta- og barnamálaráðuneytið boðaði nýverið samráð um nýtt skipulag fyrir opinbera framhaldsskóla. Markmið breytinganna er að styrkja framhaldsskólastigið, efla starf skólanna og þjónustu við nemendur.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að samráðsferlið hafi hafist með stórum vinnufundi með öllum skólameisturum í lok september. Þar var farið yfir stjórnsýslulegt hlutverk fyrirhugaðra svæðisskrifstofa auk þess sem samspil ráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og framhaldsskólanna var skoðað sérstaklega í breyttu skipulagi. Einnig voru umræður um hvaða þjónustu svæðisskrifstofur eigi að veita nemendum, starfsfólki og stjórnendum framhaldsskólanna til að markmið um öflugra framhaldsskólastig náist.

Heimsóknir í alla opinberu framhaldsskólana

Einn mikilvægasti hluti samráðsferilsins felst í heimsóknum mennta- og barnamálaráðherra Guðmundar Inga Kristinssonar í alla opinberu framhaldsskólana sem eru 27 talsins. Heimsóknirnar hófust í síðustu viku og nú þegar hefur ráðherra heimsótt sex skóla.  Í heimsóknunum á ráðherra milliliðalaust samtal við kennara, annað starfsfólk skólanna og í sumum tilfellum nemendur skólanna.

Á fundum ráðherra með kennurum og starfsfólki þessara sex skóla hafa komið fjölmargar góðar ábendingar sem lofa góðu um framhaldið.  Samstaða er um að þörf sé á auknum stuðningi við starfsemi framhaldsskólanna og ekki síst við nemendur. Meðal þess sem fram hefur komið er:

  • Að æskilegt sé að færa tiltekna þjónustu og ráðgjöf við framhaldsskóla frá ráðuneytinu til annars aðila. Þannig sé þörf á að aðgreina stefnumótunar-, eftirlits- og úrskurðarhlutverk ráðuneytisins frá þjónustu og ráðgjöf við rekstur og stjórnsýslu skólanna.
  • Mikilvægt sé að skýra ábyrgð skólameistara og hlutverk í nýju stjórnskipulagi og að ekki sé æskilegt að færa daglegar stjórnunarheimildir frá skólameisturum, svo sem vegna reksturs og ráðninga.

 

Ráðherra hefur þegar ákveðið að skólarnir muni halda daglegum stjórnunarheimildum við ráðningar og rekstur í nýju skipulagi. Gert er ráð fyrir að samráðsferlið standi fram í nóvember og þá taki við mótun tillagna, segir að endingu í tilkynningunni.

Nýjustu fréttir

Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
ÍBV með mikilvægan sigur á ÍR
Kveikjum neistann: Jákvæðar vísbendingar
Hvattning til Eyjamanna
Heilsuefling starfsfólks fær aukið vægi
Handhafar Fréttapýramída 1992-95
ÍBV sækir ÍR heim
Siglt til Þorlákshafnar
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.