Vöktun á loðnustofninum mun halda áfram í þessari viku en skipið Polar Amaroq fór frá Reykjavík í dag til leitar úti fyrir Vestfjörðum til að kanna hvort vestanganga kunni að vera á ferðinni, og er gert ráð fyrir að skipið verði við leit næstu vikuna.
Síðustu daga hafa fréttir borist af loðnu á grunnunum fyrir Norðurlandi og mun Polar væntanlega skoða það svæði að lokinni yfirferð við Vestfirði. Í dag er einnig ráðgert að Ásgrímur Halldórsson SF haldi frá Höfn í Hornafirði og skoði ástand loðnugöngunnar með suðurströndinni og djúpin þar út af.
Frá því í fyrrahaust hefur ítrekað verið farið í leiðangra til að meta stærð og útbreiðslu loðnustofnsins. Auk rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar hafa veiðiskip tekið þátt í verkefninu. Ekki hefur fundist nægilegt magn til að gefa út veiðikvóta eins og greint hefur verið frá og mun það hafa gríðalega mikil áhrif á bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar ef ekkert verður veitt af loðnu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst