Í lok september kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í máli er varðar ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. um að synja beiðni um aðgang að ráðningarsamningum framkvæmdastjóra félagsins og útgerðarstjóra þess.
Beiðnin var lögð fram 4. mars 2024 og henni synjað 16. apríl sama ár, með þeim rökum að gögnin féllu undir 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og félaginu væri heimilt að takmarka aðgang kæranda að þeim. Í kæru er rakið að um sé að ræða tvo æðstu embættismenn félags sem sé alfarið í eigu Vestmannaeyjabæjar. Til samanburðar gefi sveitarfélagið upp laun og samninga sinna æðstu manna.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningum framkvæmdastjóra og útgerðarstjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Ákvörðun félagsins er byggð á því að gögnin falli undir 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og verði ekki afhent. Ákvæðið hljóðar svo:
Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.
Fram kemur í niðurstöðukafla að úrskurðurinn staðfesti að þó svo að fyrirtækið geti takmarkað aðgang að ráðningarsamningum samkvæmt lögum, eigi opinberar stofnanir að veita upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda. Framkvæmdastjóri telst til æðstu stjórnenda, og því hafi almenningur rétt á að vita laun hans.
Telur úrskurðarnefndin að fyrirtækinu sé skylt að afhenda kæranda þann hluta ráðningarsamningsins sem hefur að geyma upplýsingar um launakjör framkvæmdastjóra félagsins. Að öðru leyti verður ákvörðun félagsins að hafna beiðni kæranda staðfest.
Útgerðarstjóri telst hins vegar ekki æðsti stjórnandi samkvæmt lögunum, þannig að laun hans þarf ekki að gera opinber.
Í úrskurðarorðum nefndarinnar segir að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. skuli veita kæranda, aðgang að launaupplýsingum framkvæmdastjóra en getur haldið trúnað um laun útgerðarstjóra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst