„Þetta eru náttúrulega ömurlegar fréttir. Því miður gat maður alveg búist við því að til einhverra slíkra aðgerða kæmi en þetta er mikið högg. Ég held að í allri umræðu um veiðigjöld, sægreifa, ofurhagnað, sanngirni og öll önnur hugtök sem eru notuð í opinni umræðu þá megum við ekki gleyma að þarna eru 50 einstaklingar sem eru að missa vinnuna. Það er grafalvarlegt en á sama tíma er gott að vita af því að Drífandi verði í virku samtali við hlutaðeigandi.”
Þetta segir Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja í samtali við Eyjafréttir spurður um hans viðbrögð við fréttum þess efnis að loka eigi fiskvinnslunni Leo Seafood.
„Maður vonar eðlilega að hægt verði að tryggja þessu fólki störf og að öll óvissa um framtíð þess verði eytt eins fljótt og hægt er,” bætir hann við.
Aðspurður um hvort hann telji að ríkisstjórnin hafi haft nægilegt samráð við sveitarfélög og atvinnulíf í sjávarbyggðum áður en veiðigjaldabreytingarnar voru settar fram og samþykktar, svarar Njáll:
„Nei, ég held að það hafi verið mjög ljóst í þessu ferli í vor að það var ekki mikið samráð haft hvorki við fyrirtækin sem starfa í greininni nema þau sveitarfélög sem eiga flest sitt undir sjávarútvegi. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga gagnrýndu ítrekað þetta samráðsleysi sem og einstaklingslega þau sveitarfélög sem þar eru undir og reyndu að fá betri greiningar m.a. á þeim afleiðingum sem þessi hækkun gæti haft. Því miður held ég að þetta mál hefði mátt vinna betur.”
Munu bæjaryfirvöld reyna að fá ríkið í einhverjar mótvægisaðgerðir í byggaðarlaginu?
Það hefur ekki verið sérstaklega rætt en við munum að sjálfsögðu fylgjast með þróun mála á næstunni.
Þessu tengt: Vinnslustöðin lokar Leo Seafood
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst