Haldinn var íbúafundur um samgöngumál þann 13. mars síðastliðinn. Innviðaráðherra og vegamálastjóri fluttu erindi um stöðu samgangna við Vestmannaeyjar. Fram kom á fundinum að ríkisstyrkt flug er komið í útboðsferli og hefst það næsta vetur en það er til þriggja ára. Farið var yfir samgöngumálin á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku.
Hugmynd að færa ós Markarfljóts
Vegagerðin vill að danska straumfræðistofan DHI verði fengin til frekari rannsókna og könnunar á aðstæðum í Landeyjahöfn.
Einnig kom fram að hugmyndir eru uppi um það hjá Vegagerðinni að færa ós Markarfljóts 2-4 km frá höfninni til austurs til að minnka sandburð.
Ráðherraskipaður vinnuhópur um göng milli lands og Eyja er að störfum og stefnir hópurinn á að skila af sér í maí.
Að dýpkunaraðilinn standist útboðsskilmála
Fundurinn var mjög vel sóttur og nýttu fundargestir sér það að innviðaráðherra og vegamálastjóri sátu fyrir svörum seinni hluta fundarins ásamt yfirmanni hafnarmála hjá Vegagerðinni.
Mikil umræða var um dýpkun í og við Landeyjahöfn og þung áhersla lögð á það hjá fundarmönnum og fulltrúum Vestmannaeyjabæjar að sú staða sem uppi var í vetur sé ekki ásættanleg. Skorað var á Vegagerðina að bæta ástandið en liður í því er að dýpkunaraðilinn standist útboðsskilmála varðandi afköst við dýpkun. Fram kom hjá Vegagerðinni að verið væri að skoða útboðsmál.
Bæjarstjórn fundaði með ráðherra og vegamálastjóra fyrir fundinn og kom vel á framfæri þeim kröfum og áhyggjum sem íbúar í Eyjum hafa af samgöngunum.
Verði ekki boðið upp á annan vetur sambærilegan þessum
Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar um málið segir að bæjarstjórn ítreki að þeim kröfum sem fram komu á íbúafundinum verði fylgt eftir og sér í lagi að gengið verði þannig frá dýpkunarmálum í Landeyjahöfn að íbúum Vestmannaeyja verði ekki boðið upp á annan vetur sambærilegan þessum. Við treystum því að þingmenn kjördæmisins sem eiga að gæta okkar hagsmuna fylgi kröfum fundarins eftir af fullum þunga.
https://eyjar.net/fullt-ut-ur-dyrum-a-ibuafundi/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst