Eimskip tilkynnti í síðustu viku að vegna vísbendinga um að dýpi í hafnarmynninu hafi minnkað vegna óveðurs undanfarna daga og öldugangs við Landeyjahöfn, yrði siglt milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar í þessari viku. Samkvæmt heimildum Eyjafrétta er talið að Baldur hafi tekið niðri á sunnudaginn en það hefur þó ekki fengist staðfest. Heimildamaður Frétta taldi jafnframt ólíklegt að staðan í Landeyjahöfn myndi breytast mikið í vikunni þannig að siglt yrði áfram til Þorlákshafnar í næstu viku. Það bendir því allt til þess að veturinn verði lítið betri en sá síðasti hvað varðar siglingar í Landeyjahöfn.