Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt verð á nýjum lóðum við Miðgerði sem eru tilkomnar vegna gjalda frá Minjastofnun. Í kjölfarið hefur Vestmannaeyjabær auglýst lausar til umsóknar lóðir við Miðgerði 1–11 og við Helgafellsbraut 22–26. Samkvæmt upplýsingum sem Eyjafréttir kölluðu eftir frá Vestmannaeyjabæ var kostnaður Minjastofnunar við verkið rúmlega 16,8 milljónir króna.
Samkvæmt auglýsingu bæjaryfirvalda eru í boði tvær lóðir fyrir parhús og sex lóðir fyrir einbýlishús við Miðgerði. Hámarks byggingarmagn fyrir tvíbýli er 180 fermetrar á íbúð en 280 fermetrar fyrir einbýli. Byggingarnar geta verið ein til tvær hæðir sunnan við Miðgerði, en ein hæð eða ein hæð og kjallari norðan við götuna.
Þessu tengt: Líklega þörf á frekari fornleifarannsóknum
Við Helgafellsbraut er í boði ein lóð fyrir raðhús með þremur íbúðareiningum, þar sem gert er ráð fyrir einni hæð og hámarks byggingarmagni 170 fermetra á íbúð.
Verð á lóðum við Miðgerði er á bilinu 1,6 til 2 milljónir króna, en lóð við Helgafellsbraut kostar 2,7 milljónir króna. Umsóknarfrestur er til 13. nóvember 2025, og eru umsækjendur hvattir til að kynna sér deiliskipulag og vinnureglur um lóðaúthlutun á vef Vestmannaeyjabæjar.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst